Svava Johansen, eigandi NTC-verslanakeðjunnar og löngum kennd við verslunina Sautján, lagði 70 milljónir króna inn í fyrirtækið rétt fyrir síðustu áramót. Hlutafé NTC fór við það í 97 milljónir króna.

NTC-samstæðan er ein af umsvifamestu smásölufyrirtækjum landsins en undir hana heyra fyrirtæki á borð við Gallerí sautján, GS skór, Eva, Smash og tugir verslana.

Fram kemur komið í ársreikningum að skuldir hafi sligað rekstur NTC í kjölfar gengishrun krónunnar. Því til viðbótar hefur eigið fé fyrirtækisins verið neikvætt frá árinu 2008 til 2010. Endurskoðendur hafa greint frá því í fyrirvara sínum við uppgjörin að skuldir væru meiri sem næmi peningalegum eignum og bókfærðu eigin fé og geti því leikið vafi á rekstrarhæfi félagsins.

Rekstur samstæðunnar hefur gengið vel þrátt fyrir ólgusjó í efnahagslífinu. Rekstrarhagnaður án tillits til fjármunatekna og gjalda nam rúmum 143,3 milljónum króna árið 2007 og stóð í tæpum 39 milljónum króna árið 2010. Framlegð hefur haldist nokkuð jöfn. Hún var 945 milljónir árið 2007 en stóð í 976 milljónum þremur árum síðar.

NTC hagnaðist reyndar um 21 milljón krónur árið 2010 eftir taprekstur í tvö ár á undan. Tapið árið 2009 var þó mest, rúmir 608 milljónir króna. Eigið fé NTC var árið 2010 neikvætt um 484 milljónir króna og námu heildar skuldir í lok árs rúmum 1,7 milljörðum króna. Þar af námu skuldir gagnvart lánastofnunum rúmum 1,4 milljörðum króna.

Skuldar nær aðeins í jenum og frönkum

Skuldir NTC gagnvart lánastofnunum eru að nær öllu leyti í erlendri mynt, að langmestu leyti í japönskum jenum og svissneskum frönkum, og jukust þær verulega í gengishruninu. Af heildarskuldum voru einungis 82 milljónir í krónum.

Svava segir í samtali við Viðskiptablaðið erlendar skuldir félagsins hafa verið leiðréttar í kjölfar gengislánadóms Héraðsdóms í fyrrasumar. Eins og fleiri sem eru með erlend lán á bakinu bíður Svava eftir endanlegum útreikningum á lánunum og vaxtaviðmiðun þeirra miðað við nýfallinn dóm Hæstaréttar. Þegar það liggur fyrir gerir hún ráð fyrir því að erlendum lánum NTC-keðjunnar verði breytt í íslenskar krónur.

„Það er ekki verið að gera neitt aukalega fyrir okkur. Við erum í sömu stöðu og svo margir sem voru með erlend lán. Þau eru nú uppreiknaðar eins og við hefðum fengið íslenskt lán með íslenskum vöxtum. Hæstiréttur er búinn að dæma að þessi lán skuli bera upphaflegu vaxtaprósentuna svo ég á von á að bankarnir fari  fljótlega aftur í að endurteikna  lánin. Hvar lánin okkar standa í dag þá vitum við ekki alveg. Þau verða töluvert lægri en nú en eflaust töluvert  hærra en þegar við tókum þau,“ segir Svava.