Rekstur Nox Medical á síðasta ári gekk vel, þrátt fyrir heimsfaraldur og verulegar áskoranir honum tengdar," segir Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri félagsins, en árið 2020 var fyrsta heila rekstrarár eftir samruna Nox Medical og bandaríska systurfélagsins FusionHealth undir merkjum  Nox Health. Á sama tíma lauk félagið 10 milljóna dala hlutafjáraukningu er framtakssjóður í rekstri Alfa Framtaks bættist í hlutahafahópinn. Nox Healthsamstæðan velti samtals ríflega 5,3 milljörðum króna í fyrra.

Tekjur Nox Medical námu þar af tæplega 19,3 milljónum evra á síðasta ári, eða sem nemur um 3 milljörðum króna, og jukust um 8% frá fyrra ári. Rekstrargjöld námu tæplega 9,3 milljónum evra og jukust lítillega milli ára, eða um rúm 5%. EBITDA hagnaður félagsins nam 4,7 milljónum evra og jókst um 27% frá árinu 2019. EBITDA hlutfall var 24,4% samanborið við 21% á fyrra ári. Heildarhagnaður Nox Medical eftir skatta og fjármagnsliði á árinu 2020 nam 3,2 milljónum evra en árið áður nam hagnaðurinn 4,5 milljónum evra. Þess ber þó að geta að á rekstrarárinu 2019 var 1,5 milljóna evra einskiptis söluhagnaður af hlutabréfum tengdur fyrrnefndum samruna Nox Medical við FusionHealth.

Eignir félagsins námu 16,1 milljón evra í árslok 2020, þar af handbært fé 5,4 milljónum evra. Eigið fé nam 12,3 milljónum evra og eiginfjárhlutfall var því 76%. Þá ber félagið engar vaxtaberandi skuldir.

„Það er gaman að hugsa til þess að í þessari viku eru 15 ár síðan Nox Medical hóf starfsemi. Með frábæra hugmynd í farteskinu og áræðni, bjartsýni og elju að vopni ýttu sjö verkfræðingar úr vör vegferð þar sem markmiðið var að breyta og bæta tækni sem notuð er af læknum til að greina svefnvanda," segir Pétur.

Nú, fimmtán árum síðar, sé Nox Health leiðandi á sínu sviði í heiminum og reki umfangsmikla starfsemi í Bandaríkjunum. Starfsmenn hér á landi séu orðnir tífalt fleiri og um 200 í Bandaríkjunum. Þá hafi félagið skilað um 15 milljörðum króna, í formi gjaldeyristekna, inn í íslenskt hagkerfi. „Meira en 10 milljónir manna um allan heim hafa fengið greiningu á svefnvanda sínum þar sem lausnir Nox Medical koma við sögu. Framtíð félagsins er björt og verkefnið ærið; að bæta svefnheilsu mannkyns. Það er vissulega metnaðarfullt markmið, en með þann einvala mannauð sem Nox hefur á að skipa eru okkur allir vegir færir og tækifærin óendanleg," bætir hann við.

Nánar er rætt við Pétur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .