Væntingar fjárfesta og síðar áhættufælni þeirra, sem rekja má til vanskila af bandarískum áhættusömum húsnæðislánum, hafa valdið miklum  sveiflum á gengi félaga í Kauphöllinni það sem af er þriðja fjórðungs.

Bendir greiningardeildar Glitnis á að gengi Úrvalsvísitölunnar sló hvert metið á fætur öðru í byrjun júlímánaðar og hélt áfram að hækka þar til hún náði sínu hæsta gildi fyrr og síðar 18 júlí. Þá stóð hún í 9016,48 stigum og hafði hækkað um 8,65% á fjórðungnum.

?Næstu daga stóð hún nánast í stað en frá 23 júlí hefur staðið yfir nánast samfelld lækkunarhrina og við lokun markaða á föstudaginn var gengi Úrvalsvísitölunnar komið niður í 8402,4 stig. Hún hafði þá lækkað um 6,81% frá sínu hæsta gildi þann 18.júlí. Hækkunin á fjórðungnum er því fyrir opnun markaða í dag 1,25%,? segir greiningardeildin.

Væntingar og síðar áhættufælni

Hún segir að hækkunin í upphafi fjórðungsins virtist fyrst og fremst vera keyrð áfram af væntingum því engar sérstakar fréttir af starfsemi einstakra félaga bárust á þessu tímabili.

?Lækkunina undanfarið má svo rekja til aukinnar áhættufælni fjárfesta í kjölfar á vanskilum af bandarískum áhættusömum húsnæðislánum (e. subprime lons). Lækkunin hefur átt sér stað þrátt fyrir að fyrirtækin hafi verið að skila uppgjörum sem hafa verið í flestum tilfellum umfram væntingar og að íslenskir bankar hafi ekki verið í umræddum áhættusömum lánveitingum,? segir greiningardeildin.

Hún segir að þróunin næstu daga mun ráðast af því hvort fjárfestar telji áhrif vanskila af ofangreindum lánum séu að fullu komin í ljós en bankar víðvegar um heiminn hafa verið að gefa upp hve mikil áhrif vanskilin geti haft á efnahag þeirra.