Svein Harald Øygard, sem stendur upp úr Seðlabankastjórastólnum í dag, segist hafa vanmetið pólitíkina í kringum seðlabankastjórastöðuna og stöðuveitinguna.

Hann segir í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið að „sumir" eins og hann orðar það hafi veist að sér og dregið trúverðugleika sinn í efa. „Það er brandari að ætla að gera mig að pólitískri persónu á Íslandi," segir hann í viðtalinu.

Hann segist þrátt fyrir það sáttur við að hafa tekið að sér starfið. Það hafi verið ögrandi og krefjandi. „Faglega og persónulega hefur þetta verið mjög gefandi. Það var, þegar á heildina er litið, vel tekið á móti mér."

Már Guðmundsson tekur við Seðlabankastjórastöðunni í dag. Hann var af forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, skipaður í starfið til fimm ára frá og með 20. ágúst.

Umræðan út í hött

Forsætisráðherra skipaði Øygard, tímabundið í stöðuna í lok febrúar síðastliðnum. „Ég gerði mér grein fyrir því að það fælist mikil áskorun í því að taka að mér starfið vegna þess að efnahagskreppa ríkti á Íslandi. Það væri einn erfiðasti hjallinn. Það heillaði mig. Á hinn bóginn vanmat ég pólitíkina í kringum stöðuna og stöðuveitinguna. Ég hélt að ég myndi fá tækifæri til að einblína á fagleg málefni og sneiða hjá umræðunni um einstaklinga og það sem hefur gerst -og það hef ég reynt að gera - en sumir hafa veist að mér og reynt að draga trúverðugleika minn í efa."

Hann bætir því við að í Noregi sé umræðan um seðlabankann og seðlabankastjórann fagleg. „Þar getur verið ágreiningur um peningastefnuna - en hún er á faglegum nótum - og enginn hefur nokkru sinni dregið í efa umboð seðlabankastjórans og talið að hann hafi einhver annarleg eða pólitísk áform fyrir utan bankann. Umræðan hér hefur hins vegar að þessu leyti verið út í hött. Það er brandari að ætla að gera mig að pólitískri persónu  á Íslandi."

Þú varst nú samt í stjórnmálum í Noregi - þegar þú varst aðstoðarfjármálaráðherra?

„Það var fyrir fimmtán árum - svo hlífðu mér! Ég skil ekki hvers vegna fólk er að hafa ofan af fyrir sér við umræður um þetta í miðri efnahagskreppu. Nær væri að tala um hve gott væri að hafa seðlabankastjóra sem hefði breiðan bakgrunn, væri menntaður hagfræðingur og hefði síðustu fimmtán ár unnið fyrir alþjóðlegt fyrirtæki."

Hluti viðtalsins er birtur í Viðskiptablaðinu í dag. Það má hins vegar lesa í heild hér á eftir:

Þú sagðir fyrr á árinu að Ísland gæti verið tákn fyrir skjótan efnahagsbata. Ertu enn jafn sannfærður um það?

„Já, ég tel reyndar að þetta hafi tekið lengri tíma en vonir stóðu til. Á heildina litið hafa þó margar góðar ákvarðanir verið teknar og skref hafa verið tekin í rétta átt, svo sem varðandi endurfjármögnun bankanna.  Að mörgu leyti hefur hluti raunhagkerfisins sömuleiðis verið sterkari en búist var við með meiri vexti í útflutningi og svo framvegis. Ég er því enn bjartsýnn fyrir Íslands hönd."

Hvernig hefur Seðlabankanum gengið að ná því markmiði að draga úr verðbólgu og tryggja stöðugleika krónunnar?

„Krónan hefur verið veikari en við vonuðumst eftir. Það hefur leitt til hærri verðbólgu og orðið til þess að stýrivextir hafa þurft að vera hærri en ella. Það breytir þó ekki þeirri braut sem búið er að marka í efnahagsmálum. Hraði þróunarinnar er kannski annar, en allir þættirnir eru til staðar. Til dæmis er umtalsverður afgangur á vöruskiptajöfnuði, sem að endingu leiðir til styrkingar krónunnar."

Krónan hefur veikst um 20 % frá því þú settist í Seðlabankastjórastólinn 27. febrúar 2009. Ertu sáttur við það?

„Að sjálfsögðu er þetta ekki niðurstaða sem við vonuðumst eftir. Ég held þó að það eigi ekki sérstaklega að miða við þann tíma hvenær ég kom eða fór. Það sem skiptir máli er heildarstefnan og þróunin hefur verið í rétta átt. Á undanförnum mánuðum hefur krónan verið stöðugri -  þótt hún hafi verið veikari en æskilegt er, sem auðvitað er eitthvað sem þarf að taka á og peningastefnunefnd Seðlabankans mun gera á komandi mánuðum."

Seðlabankinn hefur spáð því að verðbólgan nái verðbólgumarkmiðinu 2,5 % snemma árs 2010. Telurðu enn að því markmiði verði náð?

„Já, horfurnar eru í grundvallaratriðum þær sömu. Tímasetningar hafa þó breyst vegna veikingar krónunnar í mars/apríl. En þegar áhrif þess eru komin fram að fullu og þeirra hættir að gæta mun verðbólguþróunin verða sú sem áður var búist við."

Hvenær telurðu þá að verðbólgumarkmiðinu verði náð?

„Ég ætla ekki að nefna neina ákveðna dagsetningu. Við sögðum snemma 2010 ef mesti verðbólguþrýstingurinn vegna veikingar krónunnar verður kominn fram. Við erum því að tala um mitt ár 2010 eða fyrri helming þess árs."

Efnahagshræringar á við jarðskjálfta

Er þörf á því að hafa háa stýrivexti á sama tíma og við búum við gjaldeyrishöft?

„Peningastefnunefnd, sem tekur ákvarðanir í þessum málum, leggur megináherslu á stöðugleika krónunnar, því það er mikilvægt að vernda efnahagsreikning heimila og fyrirtækja. Helsta áhyggjuefnið er að verðbólgan aukist og í ljósi þess eru ekki aðrir kostir í stöðunni en að halda genginu stöðugu. Við getum ekki valið annað hvort; vaxtastigið eða gjaldeyrishöftin. Við verðum að nota hvorutveggja, jafnvel þótt það séu íþyngjandi ráðstafanir. Þrátt fyrir aukinn afgang af viðskiptum við útlönd síðustu mánuði hafa tímabundnar sveiflur á borð við vaxtagreiðslur til erlendra viðskiptaaðila eða sveiflur í útflutningi orðið til þess að veikja krónuna. Það er óviðunandi."

En hafa þessar aðgerðir, þegar upp er staðið, nokkuð náð tilætluðum árangri?

„Hafa eða hafa ekki? Það er mikilvægt að sjá hlutina örlítið í samhengi. Frá 2003 til 2008 var gífurlegt innstreymi fjármagns til Íslands sem leiddi til uppsöfnunar mikilla eigna í íslenskum krónum. Síðan rakst hinn íslenski fjármálaheimur á vegg í stærstu efnahagskreppu sem riðið hefur yfir Wall Street frá seinni heimsstyrjöldinni. Það er því verið að taka hlutina aðeins úr samhengi, að mínu mati, með því að tala um hvað virkar og hvað virkar ekki - á sama tíma og tekist er á við gríðarlegar efnahagshræringar á við jarðskjálfta."

Hvenær skapast aðstæður fyrir frekari stýrivaxtalækkun?

„Eftirmaður minn og peningastefnunefnd munu meta það. Forsendurnar eru hins vegar gengisstöðugleiki og vaxandi styrkur efnahagslífsins sem leiðir til styrkingar krónunnar. Það ætti að auðvelda lækkun vaxta. Lækkun verðbólgunnar mun líka styðja slíkar breytingar."

Telurðu að stýrivextir geti náð einni stafa tölu á þessu ári eða snemma á því næsta?

„Við erum meðvituð um stöðugleikasáttmála stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins [en þar er gert ráð fyrir því að stýrivextir Seðlabanka Íslands lækki í eins stafs tölu fyrir 1. nóvember 2009  - innsk. blm] en þó er ljóst að það er okkar að ákveða stýrivexti og það munum við gera með það í huga að hér þarf að ríkja stöðugleiki. Það er ekki við hæfi að vera með vangaveltur um hvenær nákvæmlega vaxtabreytingar verða."

Hverjir eru möguleikar íslenskra fyrirtækja til að lifa í núverandi vaxtaumhverfi?

„Í fyrsta lagi er mikilvægt að hafa í huga að stýrivextir eru 12% en innlánsvextir Seðlabankans eru 9,5%. Markaðsvextir eru lægri. Fjármagnskostnaður hefur því lækkað. Mörg fyrirtæki þurfa hins vegar að leita í dýrara fjármagn og ég er því sammála því að það er mikilvægt að byggja fjármögnunarkerfi fyrir íslensk fyrirtæki, tryggja aðgang þeirra að alþjóðlegum mörkuðum og draga úr vaxtaálagi. Það er forgangsatriði. Á sama tíma er vert að benda á að þótt mörg fyrirtæki berjist í bökkum gengur fjöldi fyrirtækja ágætlega, til að mynda flestir stóru útflytjendurnir. Veiking krónunnar gerir þau samkeppnishæfari þó verð á lykilútflutningsvörum hafi lækkað."

Stefnt er að því að taka fyrsta skrefið í afnámi gjaldeyrishaftanna fyrir 1. nóvember en þá á að afnema höft á öllu  innstreymi erlends gjaldeyris. Ertu bjartsýnn á að það takist fyrir tilsettan tíma?

„Við settum fram nokkur skilyrði sem þyrftu að vera fyrir hendi í samræmi við áframhaldandi þróun endurreisnaráætlunar efnahagsáætlunar [stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins - innsk. blm]. Við teljum að þau eigi að geta verið fyrir hendi fyrir 1. nóvember."

Eins og fyrr sagði felur fyrsti hlutinn í sér afnám hafta á innstreymi fjármagns. Telurðu að erlendir fjárfestar beri nægilega mikið traust til Íslands til að vilja fjárfesta hér? Ef marka má könnun og skýrslu bresku lögfræðistofunnar Norton Rose er það ekki svo.

„Við höfum ekki skoðað umrædda skýrslu í smáatriðum en auðvitað er framundan mikil áskorun fyrir íslensk fyrirtæki, þar eð áhættuþóknun sem lögð verður á lán til Íslands og íslenskra fyrirtækja leiðir til þess að fjárfestingar á Íslandi verða minna aðlaðandi en ella. Það þarf því að skoða alla möguleika, öll tækifæri og  hvaða ráðstafanir er hægt að gera til að komast hjá eða draga úr áhættuþóknuninni. Það er forgangsatriði að vinna að efnahagsáætluninni og þar með sýna fram á að ekki sé ástæða til þess að leggja á slíka áhættuþóknun. Í öðru lagi þarf að þróa viðskiptasiðferði og gegnsætt umhverfi og í þriðja lagi þarf að virkja lykil atvinnuvegi, svo sem sjávarútveginn, ferðaþjónustuna og orkugeirann, og vekja athygli á styrk þeirra. Það á ekki að tengja þá við íslenska áhættu heldur vekja athygli á innbyggðum styrk þeirra. Það er ekkert sem segir að sterkustu sjávarútvegsfyrirtækin, sem mörg eru í fremstu röð í heiminum, geti ekki laðað að sér erlent fjármagn, lán á sanngjörnu og samkeppnishæfu verði. En það þarf að vinna að þessu og frumkvæðið að þeirri vinnu þarf að koma frá fleirum en einum aðila, svo sem frá bönkunum, yfirvöldum og atvinnugreinunum. Ef verkefni fyrirtækjanna hér eru álitleg er ekkert því til fyrirstöðu að erlendir fjárfestar stilli þeim upp við hlið annarra áþekkra alþjóðlegra verkefna og meti þau samkvæmt því."

Fjármagnsmarkaðurinnn hugsanlega stöðugri

Þú greindir frá því í apríl síðastliðnum að Seðlabankinn væri að skoða leiðir til að heimila fjárfestum, sem væru með fjármagn sitt lokað inni í landinu, að breyta krónubréfunum í evrur. Þú sagðir um leið að þú ættir von á að umtalsverðum áfanga yrði náð fyrir maí. Raunin varð hins vegar önnur. Hvers vegna nýttu fjárfestar sér ekki þessa kosti?

„Seðlabankinn opnaði þessa leið en það er ekki í hans verkahring að beina lánveitendum eða lántökum inn á ákveðnar brautir. Það hefur kannski sýnt sig að þessir fjárfestar eru ekki eins óþolinmóðir og talið var. Þeir vilja fremur halda í krónubréfin sín áfram, sumir hafa jafnvel farið út í að fjárfesta í langtíma ríkisbréfum. Þetta eru kannski slæmar fréttir að  því leyti að þetta tiltekna kerfi varð ekki jafn skilvirkt og vonast var til, en góðar fréttir að því leyti að fjármagnsmarkaðurinn er hugsanlega stöðugri en gert var ráð fyrir."

Nokkrir hagfræðingar hafa að undanförnu sagt áhersluna á mikinn gjaldeyrisforða óþarfa þar sem allir viti að hann eigi ekki að nota til að verja krónuna. Hvaða skoðun hefur þú á þessu?

„Gjaldeyrisforðinn er fyrst og fremst höggdeyfir eða öryggisventill - ekki síst þegar byrjað verður að aflétta gjaldeyrishöftunum. Hann er varúðarráðstöfun en ekki ætlaður til að nota í miklum mæli til inngripa á gjaldeyrismarkaði. Áætlun um afléttingu gjaldeyrishafta er sett þannig upp að hægt verði að tryggja bæði stöðugleika krónunnar og koma í veg fyrir umtalsverð inngrip og að því marki er rétt að segja að hann verði líklega ekki nýttur. Hann þarf að vera fyrir hendi af ákveðnum ástæðum og lánin frá [frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Norðurlöndunum og fleirum - innsk. blm] verða notuð til að styrkja forðann. Auðvitað þarf að tryggja aðgang að lausafé en ekki með þeim hætti að gjaldeyrisforðinn sé nýttur frá degi til dags. Þetta fé er  meðal annars fjárfest í öruggum ríkisskuldabréfum þannig að Seðlabankinn nýtur góðs af vöxtum sem að hluta koma á móti  kostnaði við lánin. Kostnaðurinn við gjaldeyrisvaraforðann er því minni en margir halda."

Hversu stór þarf forðinn að vera?

„Ég ætla ekki að vera með vangaveltur en með fyrrgreindum lánum verður hann um það bil fimm miljarðar Bandaríkjadala, sem er talsverð upphæð og ætti að duga svo hann geti gegnt hluverki sínu."

Þurfa Íslendingar á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að halda til að koma sér í gegnum kreppuna?

„Ég tel að AGS hafi verið gagnlegur á margan hátt fram að þessu. Hann hefur til dæmis stutt stjórnvöld í að setja saman víðtæka efnahagsáætlun og halda henni gangandi. Þá hefur AGS auðveldað aðgengi Íslendinga að lánasamningum. Það er forgangsatriði AGS að tryggja að Ísland nái sér á strik aftur og þar er gríðarleg þekking til staðar. Ég legg þó áherslu á að ekkert kemur í staðinn fyrir ákvarðanir íslenskra stjórnvalda og AGS verður hér svo lengi sem hann kemur að gagni."

Hvernig vinna Seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn saman?

„Við eigum fundi annað slagið og eigum í samskiptum vegna ýmissa þátta efnahagsáætlunarinnar. Þeir hafa marga tæknilega ráðgjafa á sínum snærum. Það er mikil þekking í Seðlabankanum en það kemur sér líka vel að geta reitt sig á AGS. Við erum að sjálfsögðu stundum sammála og stundum ósammála.  Á heildina litið eru samskiptin gjöful og gagnleg."

Hvergi bent á aðra kosti

Hefur AGS áhrif á ákvarðanatökur Seðlabankans?

„Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur sitt af mörkum á sumum sviðum efnahagsáætlunarinnar, til dæmis varðandi uppbyggingu  bankanna og umgjörð peningamálastefnunnar. Sérfræðiráðgjöf  þeirra er mjög gagnleg. Í því felast áhrifin. Það er ekkert leyndardómsfullt við það. Það er ef til vill heillandi að velta því fyrir sér hver tekur ákvarðanir og hver ekki en raunveruleikinn varðandi þær ráðstafanir sem þarf að gera er skýr. Ég hef ekki séð þá sem gagnrýna AGS benda á aðra  kosti í stöðunni. Mín litla persónulega skoðun er sú að fleiri þurfi að ræða hvað sé hægt að gera, hvaða leiðir séu færar og hvaða aðrir kostir en AGS séu til staðar - ef út í það er farið. Umræðan á Íslandi þarf að snúast um það í stað þess að kvarta og þrasa og ræða um fortíðina. Það hefur kannski farið framhjá mér en ég hef ekki séð neina aðra kosti nefnda en efnahagsáætlun AGS. Ég hef ekki séð fræðimenn eða hagsmunaaðila sem gagnrýna AGS benda á aðrar leiðir sem væri gagnlegt og uppbyggilegt í þessari umræðu."

Hver er reynsla þín af íslenskum embættismönnum?

„Ég tel þá mjög hæfa, til dæmis í Seðlabankanum. Starfsmenn þar hafa mikla reynslu og góða menntun. Kerfið hér er auðvitað minna en í öðrum löndum en styrkleiki þess er að tengja veruleika kenninganna við hagnýt viðfangsefni sem er gott. Ég tel mig hafa getað gegnt ákveðnu hlutverki, til dæmis þegar taka þarf erfiðar ákvarðanir því þá er mikilvægt að kerfið sé hlutlaust og ískalt. Færni og ákvarðanageta eiga að stýra fjármálakerfinu."

Telurðu að Íslendingar eigi áfram að  leita til útlendinga til að skipa í helstu stöður í stjórnkerfinu?

„Eins og ég sagði áðan eru margir hæfir Íslendingar og þess vegna er það kannski ekki  nauðsynlegt út af fyrir sig. Á sama tíma er engin ástæða fyrir Ísland, sem er opið og stolt samfélag, að leita ekki til alþjóðlegra sérfræðinga sem hafa reynslu af svipuðum aðstæðum og hér hafa skapast þegar þörf er á því."

Þegar ný lög um Seðlabankann voru til umræðu fyrr á árinu var deilt um hvaða kröfur ætti að gera til seðlabankastjóra. Hvaða reynslu og þekkingu telurðu að seðlabankastjóri þurfi að hafa?

„Ég myndi mæla með því að hann væri hagfræðimenntaður og með hagnýta reynslu sem er styrkur í faglegri umræðu og við mikilvægar ákvarðanir. Reynsla af fjármálamörkuðum heimsins kemur sér líka vel. Hlutverk Seðlabankans er að ákvarða peningastefnuna en líka að tryggja fjármálalegan stöðugleika og virkni markaða. Sambland af reynslu af þessu tagi væri því gagnleg."

Víkjum að því þegar þú komst til starfa í Seðlabankanum. Þú komst til landsins áður en ný lög um bankann voru samþykkt?

„Já, það er ekkert leyndarmál. Ríkisstjórnin vildi tryggja að Seðlabankinn væri ekki án seðlabankastjóra og ég var því til taks áður en lögin voru samþykkt og kom til landsins nokkrum dögum áður því það ríkti óvissa um það hvenær þau yrðu afgreidd. Þau voru samþykkt síðla dags 26. febrúar og ég kom hingað í bankann að morgni þess 27. Það var þó engum fána frá Noregi flaggað," segir hann og hlær. „Ég notaði dagana fram að því til að tala við fólk og afla mér upplýsinga. Það er ekkert athugavert við það þótt fólk fái tíma til að undirbúa sig."

Ögrandi og krefjandi starf

Hvernig var að setjast í seðlabankastjórastólinn eftir alla umræðuna um bankann og forvera þinn Davíð Oddsson?

„Ég gerði mér grein fyrir því að það fælist mikil áskorun í því að taka að mér starfið vegna þess að efnahagskreppa ríkti á Íslandi. Það væri einn erfiðasti hjallinn. Það heillaði mig. Á hinn bóginn vanmat ég pólitíkina í kringum stöðuna og stöðuveitinguna. Ég hélt að ég myndi fá tækifæri til að einblína á fagleg málefni og sneiða hjá umræðunni um einstaklinga og það sem hefur gerst -  og það hef ég reynt að gera - en sumir hafa veist að mér og reynt að draga trúverðugleika minn í efa. Þar sem ég er alinn upp, í Noregi, er seðlabankastjórastóllinn fagleg staða. Þar getur verið ágreiningur um peningastefnuna - en hún er á faglegum nótum - og enginn hefur nokkru sinni dregið í efa umboð seðlabankastjórans og talið að hann hafi einhver annarleg eða pólitísk áform fyrir utan bankann. Umræðan hér hefur hins vegar að þessu leyti verið út í hött. Það er brandari að ætla að gera mig að pólitískri persónu  á Íslandi."

Þú varst nú samt í stjórnmálum í Noregi - þegar þú varst aðstoðarfjármálaráðherra?

„Það var fyrir fimmtán árum - svo hlífðu mér! Ég skil ekki hvers vegna fólk er að hafa ofan af fyrir sér við umræður um þetta í miðri efnahagskreppu. Nær væri að tala um hve gott væri að hafa seðlabankastjóra sem hefði breiðan bakgrunn, væri menntaður hagfræðingur og hefði síðustu fimmtán ár unnið fyrir alþjóðlegt fyrirtæki."

Ertu þrátt fyrir allt sáttur við að hafa tekið starfið að þér?

„Já, þetta hefur verið mjög ögrandi og krefjandi starf og krefjandi tími. Faglega og persónulega hefur þetta verið mjög gefandi. Það var, þegar á heildina er litið, vel tekið á móti mér. Ég fékk mikinn stuðning innan bankans og íslensk yfirvöld og viðskiptamenn tóku mér vel. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim öllum."