Ferðamenn sem koma til Svíþjóðar þurfa ekki lengur að sýna neikvætt Covid próf á landamærunum. Þetta kemur fram í frétt hjá Reuters , en sænska ríkisstjórnin tilkynnti þetta í gær.

Þann 28. desember síðastliðinn kynnti sænska ríkisstjórnin hertar aðgerðir á landamærum. Nú þyrftu ferðamenn að sýna neikvætt próf á landamærunum og var reglan sett á til að hægja á útbreiðslu Ómíkron afbrigðisins. Nú segir ríkisstjórn Svíþjóðar, í tilkynningu frá því í gær, að ferðamenn hafi ekki nein sérstök áhrif á útbreiðslu Ómíkron afbrigðisins í Svíþjóð. Því sé ekki lengur þörf á fyrrnefndum aðgerðum á landamærum.

Svíar hafa slegið hvert metið á fætur öðru þegar kemur að daglegum smitum að undanförnu, líkt og Íslendingar og aðrar þjóðir sem kljást við hið nýja ríkjandi afbrigði. Daglega greinast nú yfir 20 þúsund smit í Svíþjóð, sem er talsvert meira en í fyrri bylgjum.