Svört atvinnustarfsemi er að aukast hér á landi og segja Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og ríkisskattstjóri brýna nauðsyn að sporna við slíkri þróun. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir í samtali við Fréttablaðið fjölmargt benda til að svört atvinnustarfsemi sé meiri nú en áður. M.a. sé peningamagn í umferð meira en það var fyrir fáum árum. Viðskipti með beinum peningum í stað rafrænna færslna geti verið vísbending um að dulin viðskipti séu að aukast. Þá sé velta í virðisaukaskatti minnkandi á vissum sviðum. Hann bendir á að mikil aukning í ákveðnum atvinnugreinum með mörgum nýjum aðilum eins í ferðaþjónustu geti verið vísbendingar um aukna dulda starfsemi.

„Að öllu þessu virtu tel ég vera komnar svo miklar vísbendingar um aukið neðanjarðarhagkerfi að öruggt geti talist,“ segir hann.