Ríkissaksóknari hefur ákveðið að áfrýja ekki til Hæstaréttar sýknudómi í máli gegn Lýði Guðmundssyni og Sigurði Valtýssyni, fyrrverandi stjórnarmönnum í Vátryggingafélagi Íslands. Þessu greinir RÚV frá.

Lýður Guðmundsson var stjórnarformaður VÍS, en Sigurður Valtýsson sat í stjórn félagsins. Þeir voru í ákæru sakaðir um að hafa notað fé VÍS til að gæta hagsmuna hvor annars. Þeir voru báðir sakaðir um að brjóta lög um hlutafélög. Lýður með því að samþykkja að VÍS lánaði Sigurði tugi milljóna króna, og Sigurður með því að láta VÍS lána félaginu Korki, í eigu Lýðs og Ágústs, bróður hans, alls hátt í tvö hundruð milljónir. Lögin banna félögum að lána stjórnarmönnum sínum fé en það á þó ekki við um venjuleg viðskiptalán. Lýður var einnig sakaður um að láta fyrirtækið kaupa hlutabréf og skuldabréf af svila Sigurðar.

Bjarni Brynjólfsson, starfsmaður VÍS, sagði við réttarhöld í málinu að hann hefði tekið ákvörðun um hvort tveggja lánin og viðskiptin við svila Sigurðar. Dómari sagði þetta hafa stutt vitnisburði þeirra Lýðs og Sigurðar auk skjala málsins. Því voru Lýður og Sigurður sýknaðir og var ríkið dæmt til að greiða ellefu milljóna króna málsvarnarlaun þeirra. Frestur til að áfrýja dómnum til Hæstarétar er nú runninn út og staðfest hefur verið að ekki verði áfrýjað og er málinu því lokið.