Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest ákvörðun fjarskiptasjóðs um að synja Sýn um aðgang að gögnum úr botnrannsókn ríkisfyrirtækisins Farice sem ráðist var í vegna lagningu nýs fjarskiptasæstrengs á milli Írlands og Írlands. Stjórn fjarskiptasjóðs hafnaði beiðninni, m.a. með vísan til ákvæða í upplýsingalögum um þjóðaröryggi og efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins. Nefndin kvað upp úrskurðinn síðastliðinn.

Í október síðastliðnum kærði lögmaður Sýnar kærði ákvörðun fjarskiptasjóðs um að synja félaginu um aðgang að gögnunum. Árið 2012 gerði fjarskiptasjóður þjónustusamning við Farice um að tryggja fjarskiptasamband Íslands við umheiminn. Með uppfærslu samningsins í desember 2018 hafi Farice verið falinn undirbúningur og framkvæmd botnrannsóknar fyrir nýjan fjarskiptasæstreng milli Íslands og Írlands. Áætlaður kostnaðar við rannsóknina var 1,9 milljónir evra eða um 265 milljónir króna á gengi dagsins.

Úrskurðarnefndin féllst á það með fjarskiptasjóði að mikilvægir öryggishagsmunir íslenska ríkisins geti staðið til þess að leynd ríki um gögnin. Nefndin segir að það sé í samræmi við þær upplýsingar sem hún aflaði hjá Alþjóðlegri nefnd um vernd sæstrengja um að yfirleitt séu ekki veittar upplýsingar um nákvæma leið sæstrengja.

Grófleg mismunun að mati Sýnar

Í kæru Sýnar segist félagið hafa um langt skeið sýnt lagningu nýs sæstrengs milli Íslands og Evrópu mikinn áhuga og átt í talsverðum samskiptum við íslensk stjórnvöld um undirbúning lagningar sæstrengs. Það hafi því komið á óvart þegar fregnir bárust af samningi um botnrannsóknir milli fjarskiptasjóðs og Farice.

Sýn lýsti því í bréfi til fjarskiptasjóðs í ársbyrjun 2019 að um „gróflega mismunun“ sé að ræða gagnvart samkeppnisaðilum á markaði, að hafa ekki haft samband við félagið um tilboð í gerð botnrannsóknarinnar. Ljóst sé að Farice fái með þessu forskot umfram aðra á markaðnum.

Fjarskiptasjóður tók fram í svari sínu að botnrannsóknin sé sérstakt afmarkað verkefni sem verði gert upp sérstaklega gagnvart Farice. Afurð botnrannsóknarinnar verði eign fjarskiptasjóðs en ekki Farice. Samkvæmt upplýsingum frá Farice hafi botnrannsóknum fyrir lagningu á nýjum fjarskiptasæstreng lokið hinn 21. ágúst 2021.

Sýn óskaði eftir gögnum um rannsóknina í skömmu eftir að rannsókninni lauk í lok síðasta sumars. Stjórn fjarskiptasjóðs hafnaði beiðninni, m.a. með vísan til ákvæða í upplýsingalögum um þjóðaröryggi og efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins. Að auki þótti stjórninni ekki ástæða til að veita aukinn aðgang „enda væri það mat sjóðsins að gögnin gætu ekki nýst utanaðkomandi og gætu beinlínis raskað framkvæmd verkefnisins meðan það væri á undirbúningsstigi“.

Geti varpað ljósi á veikleika strengsins

Í umsögn fjarskiptasjóðs til úrskurðarnefndarinnar segir hann að botnrannsóknin hafi verið ein af lykilforsendum þess að mögulegt hafi verið að skipuleggja verkefnið, afla tilskilinna fjölmargra leyfa, velja leið strengsins og jafnframt meta heildarkostnað verkefnisins.

Farice telji að gögnin innihaldi upplýsingar um viðskiptahagsmuni sína og viðskiptamanna sinna. Félagið lítur svo á að gögnin innihalda upplýsingar sem varði öryggi innviða í eigu íslenska ríkisins og efnahagslega mikilvæga hagsmuni sem geti skaðast ef þau verða gerð opinber.

Þá telur Farice að birting gagna er varði rannsóknina geti haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir leyfisveitingarferli á IRIS-sæstrengsins í Írlandi. Tafir í ferlinu myndu að öllum líkindum leiða til talsverðs fjárhagstjóns fyrir Farice, þar sem félagið hafi gert samninga við aðila vegna lagningar sæstrengsins og gengist undir skuldbindingar um að halda tiltekna tímaramma í þeim efnum. Að mati Farice hafi gögnin því verið sérstaklega viðkvæm á þessum tímapunkti.

„Gögn sem varði botnrannsóknir við strendur Írlands vegna lagningar nýs sæstrengs hafi að geyma ítarlegar og nákvæmar upplýsingar um öryggi strengsins og geti varpað ljósi á veikleika hans, ef einhverjir eru. Þau gögn sem beiðnin lúti að varði m.a. nákvæmar upplýsingar um staðsetningu strengsins.“

Farice telji afar varhugavert frá öryggissjónarmiði að upplýsingar sem geti varpað ljósi á veikleika í plægingu og staðsetningu strengsins verði gerðar opinberar. Með því að veita aðgang að rannsóknargögnum vegna strengsins yrðu opinberaðar upplýsingar um allar þær staðsetningar sem metnar hafi verið áhættusamar eða geti gert strenginn viðkvæman með einhverjum hætti. Hafa þurfi í huga hagsmuni sem tengist sérstaklega íslenska ríkinu o að átt sé við strenginn og hættu á skemmdarverkum og hryðjuverkum.

Fjarskiptasjóður tekur þó fram að eðlilegt geti talist að eftir að almennar upplýsingar um legu strengsins verði birtar eftir að hann strengurinn er lagður, ekki síst vegna sjófarenda sem sigla yfir svæði þar sem sæstrengir liggja. Aftur á móti teljist nákvæmar upplýsingar um legu sæstrengja á sjávarbotni, sérstaka áhættuþætti og þess háttar eftir sem áður sérstaklega viðkvæmar og beri að tryggja að þær séu ekki aðgengilegar óviðkomandi.

Lagning og rekstur sæstrengja ekki falið ríkinu að lögum

Í umsögn sinni til úrskurðarnefndar telur Sýn að skýrsla þjóðaröryggisráðs, sem Farice vísaði í, styðji ekki við synjun á aðgangi að gögnunum. Í skýrslunni komi ekki fram að sérstök ógn við þjóðaröryggi sé fólgin í upplýsingum um lagningu eða staðsetningu sæstrengja, heldur aðeins að ógnin felist í rofi á sambandi við umheiminn ef slíkir strengir bili eða skaðist.

Þá hafnar Sýn því að umbeðin gögn varði efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins. Lagning, eignarhald og rekstur fjarskiptasæstrengja sé ekki verkefni sem sé falið ríkinu að lögum. Efnahagslegir hagsmunir samfélagsins séu fólgnir í órofnu fjarskiptasambandi Íslands við umheiminn.

Markmið fjarskiptalaga sé að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti hér á landi og efla virka samkeppni á fjarskiptamarkaði. Einnig vísar Sýn til þess að í fjarskiptaáætlun kemur fram að lögð skuli áhersla á víðtækt samstarf markaðarins, neytenda, opinberra stofnana og ráðuneyta.

Þá telur Sýn að ummæli Farice að fyrirtækið gæti orðið fyrir fjártjóni ef gögn yrðu birt utan leyfisveitingarferlis sem fyrirtækið stæði í standist ekki. Gögn er varða botnrannsóknir á Írlandi séu birtar á vef írskra stjórnvalda. „Loks sé Farice að öllu leyti í eigu ríkisins og vandséð hvaða einkahagsmuni slíkt fyrirtæki hafi.“