*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 4. júlí 2019 07:30

Sýn kaupir Endor

Sýn mun kaupa upplýsingatæknifyrirtækið Endor, sem rekur og stýrir ofurtölvum víða í Evrópu.

Júlíus Þór Halldórsson
„Með kaupunum teljum við að við getum sótt frekar inn á þennan markað alþjóðlega, að færa rekstur á ofurtölvum og gagnaverum til Íslands.“ segir Heiðar um kaupin.
Eva Björk Ægisdóttir

Fjölmiðlunar- og fjarskiptasamsteypan Sýn hefur samið um kaup á íslenska upplýsingatæknifyrirtækinu Endor, sem sér um að reka og stýra ofurtölvum og tengdum þjónustum í Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi og víðar.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, segir gagnaver og ofurtölvur sífellt mikilvægari innviði, enda séu fyrirtæki og jafnvel heimili farin að færa tölvukerfi sín yfir í hið svokallaða ský, í stað þess að vera með eigin vélbúnað á staðnum. Skilin milli fjarskipta og upplýsingatækni verði því sífellt óskýrari.

„Með kaupunum teljum við að við getum sótt frekar inn á þennan markað alþjóðlega, að færa rekstur á ofurtölvum og gagnaverum til Íslands. Við sjáum líka fram á að geta dýpkað þjónustuna við þau fyrirtæki sem eru í viðskiptum við okkur nú þegar. Við verðum þá komin með teymi sem er sérhæft upplýsingatæknirekstri og meðhöndlun síaukins gagnamagns.“

Kjöraðstæður fyrir rekstur gagnavera
Auk kaupanna á Endor reisir félagið um þessar mundir gagnaver á Korputorgi í samstarfi við Opin kerfi, Korputorg og Reiknistofu bankanna.

Heiðar segir aðstæður mjög hagfelldar fyrir rekstur gagnavers hér á landi. Bæði er góð náttúruleg kæling, og svo er rafmagnskostnaður, sem er einn stærsti kostnaðarliður í slíkum rekstri, afar lágur í alþjóðlegum samanburði. Kæling í venjulegu gagnaveri er um þriðjungur rekstrarkostnaðar að sögn Heiðars, en hér geti kostnaður við hana hinsvegar verið lítill sem enginn.

Heiðar segir að þegar tillit er tekið til allra þeirra hagfelldu skilyrða sem hér eru, geti verið hægt að ná rekstrarkostnaði gagnavers hér á landi niður í um helming þess sem hann er víðast hvar annarsstaðar. Við það bætist svo að gagnaver á Íslandi mengi ekki neitt, sem verði sífellt mikilvægari þáttur fyrir þau stórfyrirtæki sem noti gagnaver hvað mest. „Alphabet – móðurfélag Google – stefnir að því að kolefnisjafna reksturinn á næstu árum. Með því að færa gagnaver hingað næðist mikil lækkun á útblæstri þar sem þau yrðu hagkvæmari, notuðu minni orku, og bara hreina orku.“

Hann sér þá fyrir sér að Sýn myndi reka gagnaverin fyrir þau, enda sé félagið í einstakri stöðu til að leiða þróun þessara mála hér á landi, þar sem Vodafone á Íslandi eigi allt sem þurfi til að bjóða upp á alhliða þjónustu á þessu sviði. „Við eigum svo mikið af grunninnviðunum. Ljósleiðarakerfi, gagnaver, símstöðvar, við eigum þetta allt saman.“

Nánar er rætt við Heiðar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Heiðar Guðjónsson Endor Sýn