Alþingi samþykkti í morgun tvö frumvörp Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um breytingar á lögum um umdæmaskipan lögreglustjóra og sýslumanna. Með lögunum er embættum sýslumanna fækkað úr 24 í níu og lögregluumdæmum úr 15 í níu. Þá verður yfirstjórn lögreglu aðskilin frá yfirstjórn sýslumannsembætta.

Í ræðu innanríkisráðherra þegar frumvörpin voru lögð fyrir Alþingi kom fram að unnið hefði verið að heildarendurskipulagningu og framtíðarstefnumótun í málefnum sýslumanna og lögregluembætta um margra ára skeið í nánu samstarfi við sýslumenn og aðra hagsmunaaðila.

Með aðskilnaði yfirstjórnar lögreglu frá yfirstjórn sýslumannsembætta er lögreglustjórum gert kleift að sinna lögreglustjórn óskiptir í ljósi aukinna krafna sem gerðar eru til löggæslu. Með þessari breytingu er stefnt að því að til verði öflug lögreglulið sem njóti styrks af stærri liðsheild og verði hagkvæmari rekstrareiningar til lengri tíma litið.

Á vef innanríkisráðuneytisins segir að ekki sé gert ráð fyrir uppsögnum starfsmanna þrátt fyrir hagræðingu í rekstri og gert sé ráð fyrir að starfandi sýslumenn njóti forgangs til skipunar í ný embætti sýslumanna.