25.700 Íslendingar skrifuðu undir áskorun til aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, til að mæla fyrir því að aðildarríki SÞ samþykki nýtt þróunarmarkmið um að auka skilning á virkni taugakerfisins. Þjóðarátakið ,,Stattu með taugakerfinu” hefur nú staðið yfir í 4 vikur og var markmiðið að fá Íslendinga til að skrifa undir áskorunina. Það er fordæmislaut að ein þjóð tali fyrir einu líffærakerfi á alþjóðavettvangi en 25.7 þúsund Íslendingar samsvara 11% kosningabærra manna hérlendis.

Í dag er engin lækning fyrir hendi á helstu taugasjúkdómum og mænu- og heilaskaða. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni er áætlað að yfir 1 milljarður manna um allan heim þjáist af sjúkdómum og skaða í taugakerfinu. Ný þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna til næstu fimmtán ára verða tekin til samþykktar í september næstkomandi.

Fram kemur í tilkynningu að Mænuskaðastofnun Íslands, SEM samtök endurhæfðra mænuskaddaðra, MS félagið, MND félag Íslands, Lauf félag flogaveikra, Heilaheill, Geðhjálp og Parkinsonsamtökin vilja koma þakklæti til allra þeirra sem skrifuðu undir áskorunina. Jafnframt vilja þau koma sérstökum þökkum til forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, frú Vigdísi Finnbogadóttur, talsmönnum átaksins og öllum þeim sem lögðu hönd á plóg til að gera þetta verðuga verkefni að veruleika.

Ekkert eitt líffærakerfi skapar meiri fötlun en taugakerfið. Auk heila- og mænuskaða er fjöldi tauga- og geðsjúkdóma eins og Alzheimers, flogaveiki, MND, MS, Parkinson, heilaglöp og heilaskaði vegna heilablóðfalls tengd taugakerfinu. Samkvæmt WHO er tíðni ofangreindra sjúkdóma að aukast sem kallar enn frekar á áríðandi aðgerðir. Það eru því miklir hagsmunir í húfi; félagslega, siðferðilega og efnahagslega.

Til fjölda ára hafa Íslendingar talað máli mænuskaddaðra á vettvangi Norðurlandaráðs, Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og Sameinuðu þjóðanna. Margt hefur áunnist í þessari barráttu síðustu ár eins og aukið norrænt samstarf, alþjóðlegur upplýsingabanki um mænuskaða og þingsályktun Alþingis Íslendinga sem samþykkt var í maí á síðastliðnu ári. Utanríkisráðuneytið og fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hafa leitað allra leiða til að fylgja eftir tilmælum þingsályktunarinnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það er von félaganna að rödd Íslendinga heyrist á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og að lækning á taugasjúkdömum og skaða í taugakerfinuverði að veruleika.