Niðurstöður, í rannsókn Festu um samfélagsábyrgð, gefa til kynna að tæpur helmingur almennings hér á landi telur að fyrirtæki hafi jákvæð áhrif á samfélagið, sem er ívið lægra hlutfall en í Evrópu. Mun hærra hlutfall Íslandeinga veit ekki um eða tekur ekki afstöðu um áhrif fyrirtækja á samfélagið en í öðrum löndum. Gefur þetta til kynna að á Íslandi skorti frekar fræðslu um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Festu.

Í könnunnunni, Samfélagsábyrgð 2014, er viðhorf almennings og stjórnenda fyrirtækja til samfélagsábyrgðar íslenskra fyrirtækja kannað og niðurstöðurnar bornar saman við viðhorf fólks í Evrópu og öðrum löndum. Þetta er annað árið í röð sem rannsókn Festu er framkvæmd. Styrkir til góðgerðamála og umhverfisvernd koma oftast upp í huga fólks þegar það hugsar um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Það eru sömu tvö málefni og oftast voru nefnd í könnun Festu árið 2013.

Tæpur helmingur telur fyrirtæki hafa jákvæð áhrif á samfélagið

Könnun Festu um samfélagsábyrgð fyrirtækja leiðir í ljós að 48% almennings finnst áhrif fyrirtækja á íslenskt samfélag vera jákvæð þegar á heildina er litið, 28% telur áhrif þeirra neikvæð og 25% veit ekki eða tekur ekki afstöðu. Íslenskir stjórnendur hafa meiri trú á jákvæð áhrif fyrirtækja, en 69% þeirra telja áhrif fyrirtækja jákvæð á íslenskt samfélaga, 13% þeirra telur áhrifin neikvæð og 18% veit ekki eða tekur ekki afstöðu.

Fleiri óvissir og færri neikvæðir og færri jákvæðir hér á landi en í Evrópu

Þegar niðurstöðurnar eru bornar saman við könnun Evrópusambandsins meðal Evrópuþjóða kemur í ljós að 41% Evrópubúa telur fyrirtæki hafa neikvæð áhrif á samfélag sitt en 52% Evrópubúa telur fyrirtæki hafa jákvæð áhrif. Þar er hins vegar aðeins 7% sem veit ekki eða tekur ekki afstöðu.

Fleiri óvissir á Íslandi en í nágrannalöndunum

Áhugavert er að skoða hvernig Ísland kemur út í samanburði við þau lönd sem við berum okkur gjarnan saman við. Í Danmörku telja 85% almennings fyrirtæki hafa jákvæð áhrif, 54% Breta, 67% Íra og 60% Bandaríkjamanna. Í öllum þessum löndum er hlufall þeirra sem ekki vita eða taka ekki afstöðu mun lægra en á Íslandi eða 5-9% á móti 25% almennings á Íslandi.

Umhverfismál og styrkir til góðra málefna efst í huga fólks

Þegar íslenskur almenningur og stjórnendur eru spurðir hvað þeim dettur fyrst í hug þegar þeir hugsa um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja nefna flestir umhverfismál eða styrki og stuðning við samfélagsleg verkefni (um 19% almennings og stjórnenda nefndu umhverfismál en 20% stjórnenda og 17% almennings nefndu styrki og stuðning).

Meðal annarra atriða sem nefnd voru eru ábyrgð á nærsamfélagi, atvinnusköpun, heiðarleiki, velferð og öryggi starfsmanna og skattgreiðslur, en áberandi er að færri meðal almennings og og stjórnenda nefndu skattgreiðslur í ár en í könnun Festu í fyrra. Fjölmörg atriði voru nefnd og bendir það til að fólk skilji hugtakið samfélagsábyrgð á mismunandi hátt.

Mikið óunnið verkefni

Að sögn Ketils B. Magnússonar framkvæmdastjóra Festu, miðstöðvar um samfélegaábyrgð, er vissulega áhyggjuefni að færri Íslendingar telji að fyrirtæki hafi jákvæð áhrif á samfélagið en íbúar í öðrum löndum. Hann bendir þó á að hlufall þeirra sem ekki vita eða svara ekki um áhrif fyrirtækja er mun hærra á Íslandi en annars staðar og að það sé vísbending um að mikið verk sé óunnið þegar kemur að fræðslu og umræðu um samfélagsábyrgð fyrirtækja hér á landi. Umræðan um samfélagsábyrgð fyrirtækja er orðin þroskuð í nágrannalöndum okkar. Þar er algengt að fyrirtæki segi opinberlega frá stefnu sinni og aðgerðum á sviði samfélagsábyrgðar og tryggi gagnsæi með því að birta opinberlega upplýsingar um áhrif sín á samfélag og umhverfið. Ketill bendir á að krafan um aukið upplýsingaflæði um samfélagsábyrgð muni aukast hér á landi, ekki síst í ljósi þess að nýlega samþykkti Evrópuþingið tilskipun sem skylda mun stærri fyrirtæki til að birta upplýsingar um samfélagsábyrgð sína.