Mosulstíflan, öðru nafni Saddamstíflan, í Írak er í Tígrisdalnum um 40 kílómetrum norðan við borgina Mosul þar sem rúmlega 1,7 milljónir manna búa. Talin er hætta á að stíflan geti brostið hvenær sem er, en mikill leki hefur verið í stíflunni sem lokið var við að byggja árið 1983. Bandarísk yfirvöld hafa áætlað að 500.000 manns geti látið lífið bresti stíflan, en aðrir hafa áætlað að flóðbylgja gæti hrifið með sér allt að 70% íbúa Mosul fyrir utan þær milljónir manna sem búa neðar við Tígrisána.

Sex sinnum stærra en Hálslón

Endurbætur hafa staðið yfir við þéttingu á stíflunni, en vinnusvik og meint fjármálamisferli tengd því verkefni eru talin hafa gert þær aðgerðir hálf máttlausar. Hefur því verið varað sterklega við því að stíflan bresti, en að baki hennar eru 8 til 12 milljarðar rúmmetra af vatni ef marka má erlendar fréttaskýringar. Til samanburðar er vatnsmagn Hálslóns Kárahnjúkavirkjunar "aðeins" 2.100 gígalítrar eða 2,1 milljarður rúmmetra samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun, eða um 1/6 af stærð Mosul lónsins.

Lesið meira um Mosustífluna í helgarblaði Viðskiptablaðsins.