Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hefur vakið athygli á því að óheimilt sé að mismuna neytendum erlendis vegna þjóðernis.

„Undanfarið hefur komið fram í fréttum og umfjöllun á vefnum að íslenskum neytendum sé í einstökum tilvikum mismunað erlendis á grundvelli þjóðernis í kjölfar alþjóðafjármálakreppu og þrots íslenskra banka. Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hefur leitast við að kanna sannleiksgildi, samhengi og staðreyndir í kringum slíkar staðhæfingar og mun - ef tilefni gefst til - bregðast við, eftir atvikum með aðstoð erlendra kollega,“ segir í frétt á vef talsmanns neytenda.

Vakin er athygli á 180. grein almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sem kveður á um að hver sá sem í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi neitar manni um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli þjóðernis sæti sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum. Talsmaður neytenda bendir á að sambærileg ákvæði eigi að vera í löggjöf annarra ríkja, enda byggi ákvæðið á alþjóðasamþykktum.

„Þess má geta að talsmaður neytenda hefur oftar en einu sinni brugðist við vegna sambærilegra atvika hérlendis, þ.e. vegna meintrar mismununar á grundvelli þjóðernis og á grundvelli litarháttar. Þess er vænst að Íslendingar njóti sömu lagaverndar erlendis. Óskað er eftir ábendingum með upplýsingum um stað og stund ef slík mismunun kemur fyrir gagnvart íslenskum neytendum erlendis. Að vanda er nafnleyndar gætt hjá embætti talsmanns neytenda,“ segir á vef talsmanns neytenda.