Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, gagnrýnir Íslandspóst og segir ekki ásættanlegt að neytendur þurfi að sækja mismunandi miða, á fleiri en einn stað og endurnýja reglulega, til þess að þeir geti nýtt sér rétt sinn til þess að afþakka fjölpóst og fríblöð. Þetta kemur fram í frétt á síðu talsmanns neytenda, í kjölfar þess að kynntur var nýr miði sem fólk getur fengið á bréfalúgu sína hjá Íslandspósti.

Talsmaður neytenda segir þetta útspil Íslandspósts athyglisvert, í ljósi þess að nefnd var sett á fót á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar í haust í kjölfar þess að Íslandspóstur ákvað sjálfur skyndilega að hætta útgáfu miða til að afþakka fjölpóst. Það hafi Íslandspóstur gert til að standa jafnfætis öðrum sem sendu óumbeðinn póst til neytenda. Svo segir í frétt talsmanns neytenda:

„Nú þegar hillti undir samkomulag að mati talsmanns neytenda gengur Íslandspóstur úr skaftinu og ákveður - aftur upp á sitt eindæmi - að hafna samkomulagi, sem aðrir hagsmunaðilar voru tilbúnir til þess að skrifa upp á, og taka að nýju upp einhliða afþökkunarmiða.“

Samkomulagið sem talsmaður vísar til er samkomulag í nefnd undir forsæti Póst- og fjarskiptastofnunar sem ætlað var að tryggja betur en nú er gert rétt neytenda til að afþakka fjölpóst og fríblöð.