Tap af rekstri Medcare Flögu hf. á öðrum ársfjórðungi 2004 nam 558 þúsund USD samanborið við 1 milljónar USD tap á fyrsta ársfjórðungi. Tekjur félagsins voru 5,4 milljónir USD á öðrum ársfjórðungi sem er 17% aukning frá sama tímabili árið 2003. Fyrstu sex mánuði ársins voru tekjur í Bandaríkjunum 3% hærri en fyrstu sex mánuði ársins 2003.

Tekjur af sölu til annarra markaða á öðrum ársfjórðungi jukust um 10% frá sama tímabili í fyrra. Fyrstu sex mánuði ársins er sala til annarra markaða 18% hærri en á sama tímabili árið 2003.

Framlegðarhlutfall á öðrum ársfjórðungi 2004 var 65% samanborið við 64% á fyrsta ársfjórðungi 2004 og 61% allt árið 2003. Þetta staðfestir að aðgerðir félagsins til að auka framlegð eru farnar að skila árangri.

Medcare Flaga hf. keypti í ársfjórðungnum bandaríska fyrirtækið SleepTech LLC, sem sérhæfir sig í rekstri svefnmælingastofa. Kaupin fela í sér grundvallarbreytingar á starfsemi félagsins og skapar aukinn stöðugleika í tekjum. Breytingar standa yfir á stjórnun og skipulagi í Bandaríkjunum þar sem gert er ráð fyrir að um 70% af tekjugrunni félagsins verði eftir þessar breytingar og forstjóri félagsins er fluttur til Bandaríkjanna. Rekstur SleepTech kemur inn í samstæðuna frá og með 4. júní 2004.

Sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaður var 4,1 milljónir USD á öðrum ársfjórðungi samanborið við 2,7 milljónir USD fyrir sama tímabil árið 2003. Annars vegar skýrist hækkunin af auknu umfangi rekstrarins þar sem tvö dótturfélög komu inn í samstæðuna á seinni hluta ársins 2003 og það þriðja í júní 2004. Hins vegar af kostnaðarhækkunum vegna sterkari stöðu íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar, sem er uppgjörsmynt félagsins. Ef frá er talinn rekstur SleepTech stendur kostnaður í stað frá fyrsta ársfjórðungi 2004.

Heildareignir samstæðunnar námu 52,0 milljónum USD þann 30. júní 2004. Efnahagsreikningurinn stækkaði með kaupum á SleepTech í júní, en hann var 29,6 milljónir USD í árslok 2003. Heildarskuldir samstæðunnar námu 17,8 milljónum USD þann 30. júní 2004.

Eigið fé 30. júní 2004 nam 34,1 milljónum USD og jókst um 14,4 milljónir USD frá árslokum 2003, en hlutafé var aukið í júní vegna kaupa á SleepTech LLC. Eiginfjárhlutfall félagsins er 66% sem er sama hlutfall og í árslok 2003.

Í tilkyningu félagsins til Kauphalarinnars egir að eftir kaupin á SleepTech hefur tekjugrunnur félagsins stækkað, stöðugleiki tekna aukist og ný vaxtartækifæri skapast. Medcare Flaga hf. gerir áfram ráð fyrir að reksturinn skili hagnaði frá og með þriðja ársfjórðungi. Þá er ennfremur gert ráð fyrir að markmið félagsins um að EBITDA sé að lágmarki 10% af tekjum muni nást frá og með fjórða ársfjórðungi 2004