Tap var á rekstri Halliburton á öðrum ársfjórðungi vegna mikils kostnaðar við misheppnaðan samruna við Baker Hughes Inc., ásamt minnkandi tekjum vegna verðsveiflna á orkumörkuðum.

Samruni 2. og 3. stærstu fyrirtækja á sínu sviði

Með samrunanum hefði annað og þriðja stærsta fyrirtæki heims sem þjónusta olíuiðnaðinn sameinast, en yfirvöld í Bandaríkjunum stöðvuðu samrunann af samkeppnissjónarmiðum. Var samruninn við Baker Hughes Inc. metinn á 35 milljarða Bandaríkjadali, en þar sem ekki gat orðið af honum þurfti Haliburton að greiða Baker Hughes Inc. 3,5 milljarða dala samkvæmt skilyrðum samrunans.

Jafnframt hrundu tekjur af starfsemi fyrirtækisins í Norður Ameríku, sem mestu munar um í heildarstarfssemi fyrirtækisins, um 43% vegna minnkandi olíuvinnslu á landi.

Botninum hefur verið náð

En framkvæmdastjórinn Dave Lesar sagði að botninum hefði verið náð á tímabilinu og á síðustu vikum hefði iðnaðurinn tekið við sér og fjöldi virkra olíuvinnslusvæða hefði aftur aukist um 26% á síðustu vikum.

Á ársfjórðungnum sem lauk núna 30.júní var heildartap Haliburton 3,21 milljarður Bandaríkjadala, sem nemur 3,73 dali á hlut. Á sama tíma fyrir ári var hagnaður fyrirtækisins 54 milljón dala, eða 6 sent á hlut. Minnkuðu heildartekjur fyrirtækisins um 35% í 3,84 milljarða dala.