Það er grundvallaratriði þegar fólk tekst á í orðaskaki að missa ekki stjórn á skapi sínu, eða „tapa kúlinu“ eins og það er orðað á vondri íslensku. Má því segja að Steingrímur J. Sigfússon hafi tapað í rimmunni við Vigdísi Hauksdóttur aðfaranótt þriðjudag þegar hann sagði henni að þegja. Vissulega hafði hún haft uppi frammíköll við ræðu hans og var tilgangurinn augljóslega sá að reita Steingrím til reiði.

Eflaust telja sumir að Vigdís hafi átt skotið skilið í ljósi hegðunarinnar, en þannig virkar leikurinn ekki. Sá sem fyrstur tapar kúlinu tapar leiknum.

Vigdís mætti hins vegar velta því fyrir sér hvort stjórnarþingmenn hafi ekki eitthvað betra að gera við þann stutta tíma sem eftir er af þinginu en að fara í taugarnar á vinstrimönnum.

Pistill Hugins & Munins birtist í Viðskiptablaðinu 15. maí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .