*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 2. nóvember 2019 14:34

Tapið eykst milli ára

Íslandspóstur áætlar að EBIDTA-félagsins á árinu verði jákvæðari en í fyrra. Afkoma eftir skatta verður hins vegar öllu verri.

Jóhann Óli Eiðsson
Birgir Jónsson tók við sem forstjóri Íslandspósts í júní.
Eva Björk Ægisdóttir

Íslandspóstur ohf. (ÍSP) áætlar að EBIDTA-félagsins á árinu verði jákvæðari en í fyrra. Afkoma eftir skatta verður hins vegar öllu verri en í fyrra eða tap upp á alls 755 milljónir króna. Kostnaður vegna endurskipulagningar fyrirtækisins spilar þar stórt hlutverk.

Fyrir rétt rúmu ári síðan bárust fregnir af því að eigandi ÍSP, íslenska ríkið, hefði lánað fyrirtækinu 500 milljónir króna til að bregðast við lausafjárþurrð. Nánari athugun leiddi í ljós að frekara fjármagn þurfti til að halda sjó. Það sem af er ári hefur hlutafé í félaginu verið aukið um rúmlega milljarð, það er láninu auk vaxta var breytt í hlutafé auk þess að hálfur milljarður í reiðufé var lagður í félagið. Samhliða því hefur verið lagst í talsverðar hagræðingaraðgerðir sem áætlað er að skili um hálfum milljarði á ári. Vonast er til að árangur af þeim muni skila sér í bækur félagsins eftir áramót.

„Árshlutauppgjörið liggur undirritað af stjórn hjá ríkisendurskoðanda. Það vantar hins vegar einhver formsatriði svo hægt sé að birta það,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri ÍSP, spurður um það hví uppgjörið hafi ekki verið birt líkt og lög um hlutafélög gera ráð fyrir.

Birgir segir að kostnaður við endurskipulagningu fyrirtækisins muni nær allur vera gjaldfærður á yfirstandandi rekstrarári. Það mun hafa í för með sér að afkoma ársins verður umtalsvert verri en ella en merkjanlegan jákvæðan viðsnúning megi merkja í áætlunum fyrir fjórða ársfjórðung ársins.

„Hagnaður af rekstri á fyrstu níu mánuðum ársins var 256 milljónir sem er þreföldun frá sama tímabili á síðasta ári. Tap á tímabilinu var hins vegar 653 milljónir króna sem er tvöföldun frá árinu í fyrra. Það skýrist af fyrrgreindum kostnaði við endurskiplagninguna sem bókfærður var í ágúst,“ segir Birgir.

Umræddar tölur taka eingöngu til reksturs ÍSP en ekki samstæðunnar í heild. Sem fyrr segir gera áætlanir fyrirtækisins ráð fyrir því að tap ársins verði 755 milljónir króna eftir skatta en tap ársins í fyrra var 287 milljónir króna. Samanburðarhæft tap, þar sem kostnaður vegna hagræðingaraðgerða er tekinn út fyrir sviga, nemur 464 milljónum króna. Þær aðgerðir felast meðal annars í því að skrifstofur ÍSP fluttust í nýtt húsnæði, fækkað var í framkvæmdastjórn og starfsfólki var fækkað um fimmtán prósent.

Stikkorð: Íslandspóstur