Tvö af virtustu auglýsingatímaritum heims ADWEEK og Advertising Age hafa bæði með stuttu millibili útnefnt auglýsingafyrirtækið TBWA sem auglýsingakeðju ársins 2008, eða „Global Agency of the Year 2008“.

Í tilkynningu frá TBWA að þetta sé í annað skiptið á þremur árum sem TBWA fær þessa útnefningu hjá ADWEEK og Advertising Age valdi keðjuna einnig þá sterkustu árið 2004.

„ADWEEK segir keðjuna búa yfir nýstárlegum aðferðum og einstöku samstarfsneti, sem skilar henni frábærri skapandi vinnu og glæsilegum árangri í öflun nýrra viðskipta,“ segir í tilkynningunni.

„TBWA er ekki síst þekkt fyrir að beita aðferðafræði sem kallast Disruption.“

Þá kemur fram að viðskiptavinir séu stór alþjóðleg merki á borð við Adidas, Apple, Absolut, Nissan, Pedigree o.fl. Á síðasta ári bættust VISA og Pepsi í hópinn.   TBWA-stofurnar eru 267 talsins í tæplega 80 löndum víðsvegar um heiminn, þar á meðal Íslandi, en fulltrúi keðjunnar hér nefnist TBWA\Reykjavík.

„Þarna er ekki síst verið að verðlauna keðjuna sem slíka og horfa til öflugs samskiptanets og hinnar sameiginlegu hugmyndafræði sem allar stofur í keðjunni starfa eftir,“ segir Eiríkur Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri TBWA\Reykjavík.

„Þetta sannfærir okkur bara enn frekar um að það var hárrétt skref hjá okkur að ganga til þessa samstarfs fyrir rúmu ári. Þarna deilum við sérfræðiþekkingu og hugmyndafræði með tólfþúsund manns í auglýsingageiranum – og erum klárlega að spila með þeim allra bestu.“