*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Innlent 10. júní 2019 13:10

Tekist á fyrir dómi og siðanefnd

Mál sem varðaði samþykktir Byggingarsamvinnufélags Samtaka aldraðra endaði bæði í Landsrétti og hjá siðanefnd lögmanna.

Ritstjórn

Landsréttur kvað fyrir helgi upp þrjá dóma í málum erfingja og dánarbúa gegn Byggingarsamvinnufélagi Samtaka aldraðra (BSA). Málið fór ekki aðeins fyrir dómstóla heldur endaði angi þess fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. 

Málin vörðuðu þrjár íbúðir hér í borg en í samþykktum BSA er kveðið á um að söluverð íbúða þeirra megi aldrei vera hærra en kostnaðarverð að viðbættri verðhækkun samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðar. Þá er einnig að finna ákvæði um að BSA innheimti 1% gjald af söluverði íbúðar og að skylt sé að selja þær félögum í Samtökum aldraðra. Þá hafði BSA forkaupsrétt á íbúðum í húsum sínum. 

Erfingjar íbúa höfðuðu mál til viðurkenningar á því að umrædd ákvæði væru óskuldbindandi fyrir þau. Var það í einu málinu gert eftir að erfingjarnir hugðust selja íbúðina á tæpar 38 milljónir króna en BSA krafðist þess að fá að ganga inn í kaupin fyrir 29,1 milljón. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem deilur spretta upp um umrædd ákvæði í samþykktum BSA en það gerðist einnig fyrir í upphafi aldar. Kvað Hæstiréttur þá upp dóm sinn að ákvæðið um takmörkun söluverðs yrði að fimm árum liðnum frá lóðaúthlutun ekki beitt gegn þeim sem hefði ekki skýrlega gengist undir það. Var ákvæðið um söluverð því fellt úr gildi. 

Have 1% gjaldið og skilyrðið um aðild að Samtökum aldraðra varðaði þá var það mat Landsréttar að gjaldið væri hóflega ákveðið og samræmdist lögmæltum tilgangi BSA. Var því ekki vikið til hliðar. Hið sama gilti um ákvæðið um aðild að Samtökunum. 

Skorti á tillitsemi og virðingu

Deilurnar rötuðu að auki fyrir úrskurðarnefnd lögmanna (ÚRL). Gerðist það eftir að ein íbúðin, sem um var deilt, var auglýst til sölu á markaðsverði. Sendi formaður BSA þá tölvupóst á einn erfingjann og mótmælti söluverðinu sem ólögmætri aðgerð enda bæri að selja íbúðina á kostnaðarverði. Einnig minnti hann á að 1% gjaldið innheimtist af kaupanda en ekki seljanda.

Pósturinn var áframsendur á lögmann erfingjanna sem svaraði fyrir þeirra hönd. Benti hann á að í héraði hefði verið fallist á kröfur þeirra um að víkja til hliðar ákvæðinu um kaupverðið en í héraði var einnig fallist á kröfur þeirra um að fella niður 1% gjaldið. 

„Með vísan til þessa er ljóst að þú ferð vísvitandi með rangt mál í neðangreindum tölvupósti þínum til umbj. míns. Það gerir þú í því skyni að reyna að afla [BSA] hagsmuna sem samtökin sannanlega eiga ekki rétt á. Að mínu mati er hér um refsiverða tilraun til fjársvika að ræða, sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga. Munir þú halda áfram að reyna að innheimta hið ólögmæta gjald, hvort sem það er beint úr vasa umbj. minna, eða kaupenda að eignum þeirra, þá sé ég mér ekki annað fært en að tilkynna lögreglu um slíkar tilraunir,“ sagði lögmaðurinn í tölvupósti til formanni BSA.

Þessu vildi formaðurinn ekki una, kærði póstinn til ÚRL og krafðist þess að lögmaðurinn yrði áminntur fyrir brot á siðareglum lögmanna enda hefði hann borið á hann sakir. Nefndin féllst ekki á að veita áminningu en fann þó að háttsemi lögmannsins enda hefði hann ekki sýnt fulla virðingu og tillitsemi, í skilningi siðareglna lögmanna, í samskiptum sínum.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is