Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 13,3 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2011, sem er mun hagstæðari niðurstaða en á sama tíma 2010 er hún var neikvæð um 20,7 milljarða króna. Þetta kemur fram á Hagstofu Íslands.

Tekjuhallinn nam 3,5% af landsframleiðslu ársfjórðungsins eða 8,2% af tekjum hins opinbera og hefur tekjuafkoman ekki verið hagstæðari síðan á þriðja ársfjórðungi 2008 á þennan mælikvarða

Þá hækkuðu heildartekjur hins opinbera um 3,2% milli fyrsta ársfjórðungs 2010 og 2011 eða úr 157,4 milljörðum króna í 162,3 milljaraða króna. Tekjuhækkunin skýrist af tveggja milljarða króna aukningu í tekjusköttum, svipaðri aukningu í tryggingagjöldum og ríflega eins milljarðs króna meiri tekjum af skatti á vöru og þjónustu.

Á sama tíma lækkuðuð hinsvegar heildarútgjöld hins opinbera um 1,4% eða úr 178 milljörðum króna 2010 í 175,6 milljaraða króna 2011. Skýrist sú hækkun aðallega af 2,6 milljaraða króna lækkun á vaxtakostnaði og 1,5 milljarða króna lækkun í fjárfestingu. Á móti þessu vegur 1,5 milljarða króna hækkun á félagslegum tilfærslum hins opinbera.

Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.717 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðungs 2011 eða sem svarar 106% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Að teknu tilliti til peningalegra eigna var hrein peningaleg eign ríkissjóðs, þ.e. peningalegar eignir umfram skuldir, neikvæð um 646 milljarða króna í lok þessa ársfjórðungs eða sem svarar 40% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Til samanburðar var hrein peningaleg eign ríkissjóðs neikvæð um 33,6% af landsframleiðslu á sama ársfjórðungi 2010 og 16,3% á sama ársfjórðungi 2009. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs hefur því versnað um 129 milljarða króna milli 1. ársfjórðungs 2010 og 2011.