Tekjur Nýherja jukust um 24% á öðrum ársfjórðungi frá sama tíma í fyrra, en þær námu nú 2.637,3 milljónum króna, að því er fram kemur í uppgjörinu. ?Nýherji fylgir því eftir tekjuvexti á fyrsta ársfjórðungi,? segir greiningardeild Glitnis.


Hagnaður Nýherja á öðrum ársfjórðungi eftir skatta og afskriftir var 102,5 milljónir króna samanborið við 29,4 milljónir króna í sama fjórðungi árið áður.

Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) nam 156,4 milljónum króna í ársfjórðungnum en var 154,2 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Rekstrarhagnaður af starfseminni nam 132,3 milljónum króna samanborið við 129,4 milljónum króna í sama ársfjórðungi árið áður.

Fjármagnsgjöld Nýherja hf. í öðrum ársfjórðungi námu 5,7 milljónum króna en voru 92,2 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Eigið fé Nýherja þann 30. júní 2007 var 1.520,5 milljónir króna en var 1.397 milljónir króna í
ársbyrjun. Eiginfjárhlutfall var 30,1% á örðum fjórðungi, samanborið við 27% á sama tíma fyrir ári. Veltufjárhlutfallið var 1,25, samanborið við 1,22 á sama tíma fyrir ári.

Handbært fé frá rekstri var 80.592 milljónir króna á öðrum fjórðungi, borið saman við 9.340 milljónir á sama tíma fyrir ári.

Tekjur á fyrri árshelmingi eru nokkuð umfram áætlanir og er nú gert ráð fyrir að heildartekjur Nýherja á árinu verði yfir 10 milljarðar og að áætlanir um afkomu á síðari árshelmingi gangi eftir.

Stefnt að umtalsverðiri stækkun á DanSupport

Nýherji keypti í maí allt hlutafé í DanSupport A/S sem er með höfuðstöðvar í Óðinsvéum í Danmörku. Stefnt er að umtalsverðri stækkun á rekstri DanSupport á þessu ári og því næsta og er ekki gert ráð fyrir hagnaði af starfsemi þess fyrr en á næsta ári.

Félagið sérhæfir sig í uppsetningu og rekstri á tölvu- og samskiptabúnaði fyrir meðalstór fyrirtæki og veitir auk þess hýsingar- og ráðgjafaþjónustu. Starfsmenn DanSupport eru 33 ráðgjafar og tæknimenn. Félagið er með skrifstofur í Kaupmannahöfn og í Kolding á Jótlandi auk aðalskrifstofunnar í Óðinsvéum.

Verslunin Sense var opnuð í júní til að fylgja eftir miklum vexti í hljóð- og
myndlausnadeild Nýherja, með 25 starfsmenn.

Rekstur AppliCon ehf. og AppliCon A/S í Danmörku var í samræmi við áætlanir félaganna. Unnið hefur verið að uppbyggingu nýrra AppliCon skrifstofa í London annars vegar og Stokkhólmi hins vegar til að þjóna mörkuðum í Bretlandi og Svíþjóð.

Starfsemi ParX ehf. viðskiptaráðgjafar IBM gekk vel í öðrum ársfjórðungi en tekjur voru yfir áætlun og afkoma í samræmi við markmið.

Rekstur og afkoma hjá nýju dótturfélögunum Tölvusmiðju Austurlands ehf. og Link ehf. er samkvæmt áætlun og eru horfur góðar á árinu.