Ísgerðin Skúbb sem rekur ísbúð í Laugardalnum hefur skipt um eigendur eftir tvö ár í rekstri. Kaupandinn er Hallgrímur Tómas Sveinsson, en Jón Jóhannsson mun sjá um reksturinn sem nýr framkvæmdastjóri.

Jón hefur áður komið að fyrirtækjarekstri, en þetta er frumraun hans í ísbransanum. Hann segist ótrúlega spenntur að taka við hlutverkinu, enda taki hann við heilbrigðum og vel stæðum rekstri frá fyrri stjórnendum, og hyggst ekki umbylta rekstrinum, sem hafi enda gengið vel. „Við ætlum bara að halda áfram á sömu braut og einblína á þessa góðu hluti sem þeir hafa verið að gera.“

Mötuneyti og brúðkaup
Auk þess að reka ísbúðina í Laugardalnum rekur Skúbb veisluþjónustu og þjónustar fyrirtæki beint, en fyrirtækið á lítinn ísvagn sem hægt er að mæta með á viðburði. „Við erum í allskonar veislum: Starfsmannaskemmtunum og annarskonar viðburðum, jafnvel brúðkaupum,“ segir Jón. Auk þess séu einhver fyrirtæki sem kaupi ís beint í mötuneytið hjá sér. „Gömlu rekstraraðilarnir einblíndu svolítið á þessa sölu.“

Jón segir þetta vera viðskiptalíkan sem hafi verið að ryðja sér til rúms um nokkurt skeið, enda felist töluvert hagræði í því að framleiða vöruna bæði til sölu á staðnum og beint til fyrirtækja. „Ég held það sé mikil framtíð í því,“ segir hann, og útilokar ekki að fjölga ísvögnunum ef vel gengur.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Milljarða lán og eignarhlutur til íslenskrar iðnverksmiðju hefur verið afskrifað
  • Enn er kallað eftir útskýringum á fjármögnun nýja félagsins Play sem enn leita aukins fjármagns
  • Krafist er milljarða úr hendi fyrrverandi forstjóra og búi í máli sem dómtekið er á næstu vikum
  • Milljarðafjárfesting íslensks fyrirtækis í Svíþjóð nýtir ódýrari raforku en fæst hér á landi
  • Tímamótavaxtalækkun var samt sem áður í samræmi við væntingar markaðsins sem býður aukinna fjárfestinga
  • Áberandi netsvik síðustu vikna eru krufin til mergjar en óuppgert er hvar ábyrgðin liggur
  • Bogi Þór Siguroddsson stjórnarformaður hins nýsameinaða félags Fagkaupa er í ítarlegu viðtali
  • Svipmyndum af fræðslufundi Samorku um upprunaábyrgðir raforku er brugðið upp
  • Aukið kynjajafnvægi í framkvæmdastjórnum fyrirtækja er markmið Jafnvægisvogar FKA
  • Rætt er við nýjan framkvæmdastjóra hjá Isavia sem síðustu ár hefur unnið við að samþykkja milljarða fjárfestingar í nýmarkaðslöndum
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um ábyrga innflytjendastefnu
  • Óðinn skrifar um vexti, skuldir, ferðamenn og lærdóma