Þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, eru ákærðir fyrir fyrir umboðssvik og fyrir að hafa í sameiningu misnotað aðstöðu sína, stefnt fé bankans í hættu og farið út fyrir heimildir þegar þeir lánuðu vildarviðskipavinum bankans tugi milljarða til að fjárfesta í skuldatryggingum á bankann. Fram kemur í ákæru embættis sérstaks saksóknara á hendur þeim báðum og Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg, að með háttseminni hafi 67 milljarðar króna glatast. Magnús er ákærður fyrir að hafa lagt á ráðin um lánveitingarnar.

Málið snýst um lánveitingar til að treysta stöðu bankans og kaupa afleiður tengdum skuldatryggingum á Kaupþing (e. Credit Linked Notes) í ágúst og september árið 2008. Skuldatryggingarálag Kaupþings stóð um þetta leyti í hæstu hæðum eða um og yfir 1.000 stigum. Ákæran er ítarleg og upp á 20 blaðsíður. Fjallað er um málið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í þeim hluta hennar sem fjallar Kaupþing sem millilið við sölu á skuldatryggingum á sjálfan sig. Bæði í skýrslunni og ákærunni segir að Deutsche Bank hafi teiknað viðskiptin upp.

Í ákærunni kemur fram að lánin hafi verið í evrum þegar bankinn glímdi við lausafjárþurrð í erlendri mynt.

Í ákærunni eru nefnd nokkur félög sem fengu rúmlega 100 milljóna evra lán hver til kaupa á afleiðum, s.s. Chesterfield United, Charbon Capital, Holly Beach og Trenvis sem fengu lánað hjá bankanum. Charbon Capital var í eigu Antonios Yerolemou, Holly Beach í eigu Skúla Þorvaldssonar og Trenvis í eigu Kevin Stanford og Karen Millen. S'iðasta félagið sem svo er nefnt sem fékk lánaðar 130 milljónir evra var Harlow Equities og í eigu Ólafs Ólafssonar, helsta eiganda Samskipa og stórs hluthafa í Kaupþingi á sínum tíma.