*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 19. júní 2019 08:34

Telja líkur á stöðnun eða samdrætti

Leiðandi hagvísir Analytica (e. Composite Leading Indicator) lækkar í maí, sextánda mánuðinn í röð.

Ritstjórn
Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri og stofnandi Analytica.
Haraldur Guðjónsson

Leiðandi hagvísir Analytica (e. Composite Leading Indicator) lækkar í maí, sextánda mánuðinn í röð. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Lækkun hagvísisins síðastliðið ár er hin mesta síðan árið 2008. Þar sem ekki eru enn merki um viðsnúning hagvísisins uppávið þá eru talsverðar líkur á stöðnun eða samdrætti inn á árið 2020," segir í tilkynningunni.

„Fjórir af sex undirliðum lækka frá í apríl en mesta framlag til lækkunar hafa þróun ferðamannafjölda og vöruinnflutnings. Langtímauppleitni mikilvægra undirþátta er enn sterk en mikil óvissa sérstaklega í ferðaþjónustu. Þá eru áfram áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum."

Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum. Vísitalan er reiknuð á grundvelli sömu aðferðafræði og annars staðar þar sem sambærilegar vísitölur eru reiknaðar en sérstaklega er tekið mið af verklagi OECD.