Viðskiptaráð styður frumvarp um brottfall laga um helgidagafrið nr. 32/1997 og hefur skilað umsögn þess efnist til allsherjar- og menntamálanefndar.

Ráðið telur að lögin sem hafa það að markmiði að tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar takmarki einstaklingsfrelsi um of og séu barn síns tíma.

Samkvæmt lögum um helgidagafrið er starfsemi markaða, verslunar og önnur viðskiptastarfsemi óheimil á tilteknum helgidögum. Í lögunum eru jafnframt ýmsar skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang, óheimilar á tilteknum helgidögum. Ráðið telur að ekki séu til staðar fullnægjandi rök fyrir slíkum takmörkunum og að einstaklingar eigi að njóta sama frelsis alla daga ársins, hvort sem stjórnvöld kjósa að skilgreina þá sem sem helgidaga eður ei.

Er jafnframt vísað til þess í umsögninni að óeðlilegt sé að hefðir eins trúfélags réttlæti kvaðir á alla einstaklinga í þjóðfélaginu – óháð því hvort þeir séu í viðkomandi trúfélagi eða ekki. Samkvæmt Hagstofu Íslands voru ríflega 28% Íslendinga utan þjóðkirkjunnar árið 2016. Frelsi allra einstaklinga til atvinnurekstrar eða skemmtana ætti því ekki að skerða á grundvelli hefða þeirrar kirkju.