Verðlagning á bréfum Avion Group virðist að mati Greiningar Íslandsbanka vera hæfileg. Greiningardeildin telur að í samanburði við skráð félög í Kauphöll Íslands sé verðlagningin undir meðallagi.

Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að áhugavert verður að fylgjast með þróun á gengi bréfanna en miðað við stærð félagsins má fastlega gera ráð fyrir að félagið rati í Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar við endurskoðun næsta sumar. Ef útgefin rekstraráætlun gengur eftir, má gera ráð fyrir að áhugi fjárfesta á félaginu verði talsverður því reksturinn er talsvert ólíkur rekstri annarra skráðra félaga og ætti því að henta vel til áhættudreifingar í verðbréfasöfnum fjárfesta.