Greiningardeild Glitnis telur verðlagningu á ráðgjafar- og hugbúnaðarhúsinu Innn hf., sem 365 hf. hefur keypt af Fons eignarhaldsfélagi, vera eðlilega. Samkvæmt útreikningum greiningardeildarinnar er kaupverðið 221 milljónir króna og vænt EV/EBITDA 5,5 sem bendir til þess að verðlagningin sé eðlileg.

Innn hefur sérhæft sig í veflausnum með þróun vefumsjónarkerfisins LiSA. Fons fær greitt með 60,8 milljónum nýrra hluta í 365. Miðað við gengi 365 í Kauphöllinni í dag (3,64) er kaupverðið 221 milljónir króna segir í Morgunkorni Glitnis. EBITDA framlegð Innn í fyrra nam 27 milljónum króna og því er EV/EBITDA hlutfallið 8,2. EBTIDA áætlun fyrir árið í ár er 40 milljónir króna og því er vænt EV/EBITDA 5,5.