Í dálknum The Sceptic sem birtist reglulega í Dow Jones Newswires, einni stærstu viðskiptafréttaveita heims, eru færð fyrir því rök að þróunin í íslenska hagkerfinu sé með þeim hætti að vart verði komist hjá því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp hina sameiginlegu mynt bandalagsins.

Í dálknum, sem birtist í gær, bendir viðskiptablaðamaðurinn Joel Sherwood á að Íslendingar hafi löngum verið fráhverfir aðild að ESB og upptöku evru vegna mikilvægis fiskveiða og nauðsynar á sjálfstæðri peningamálastefnu. Hinsvegar minnir Sherwood á að mikilvægi útvegsins fyrir hagkerfið fari minnkandi og bendir á að á næsta ári sé líklegt að útflutningur sjávarafurða verði ámóta og útflutningsverðmæti á áli. Sökum frekari uppbyggingar álvera mun enn frekar draga úr mikilvægi útvegsins.

Sherwood telur að sökum íslensku útrásárinnar verði sífellt erfiðara fyrir Seðlabanka Íslands að halda úti sjálfstæðri peningamálastefnu vegna þess hve hagkerfið er samofið alþjóðahagkerfinu. Sherwood tekur fram að Seðlabankinn hafi hækkað vexti átján sinnum síðan um mitt ár 2004 til þess að slá á þenslu en áhrifin hafi verið lítil vegna aðgengis að ódýru erlendu lánsfjármagni. Á sama tíma hefur hið alþjóðavædda íslenska hagkerfi gert krónuna berskjaldaða fyrir hræringum á alþjóðamörkuðum. Vegna hárra vaxta hér á landi sé krónan vinsæl meðal þeirra sem stunda vaxtamunarviðskipti. Slíkt sé ekki vandamál er fjárfestar hafi trú á stöðugleika krónunnar, en Sheerwood rifjar upp afleiðingar þess þegar slíkt traust bíður hnekki eins og þegar krónan féll um þrjátíu prósent gegn evru í fyrra í kjölfar neikvæðra skýrslna erlendra matsfyrirtækja um íslenska hagkerfið. Það gengisfall leiddi til átta prósenta verðbólguskots. Sherwood fullyrðir að þrátt fyrir að krónan hafi síðan þá styrkt sig um þrettán prósent sé skyndileg veiking hennar helsti ógnin gegn verðstöðugleika.

Ofangreindir þættir fá Sherwood til þess að álykta að Íslendingar ættu að huga aðild að ESB og horfa til upptöku evru í kjölfar þess. Þrátt fyrir að hann viðurkenni að það kunni að taka tíma að ljúka aðildarviðræðum þá segir hann að stjórnvöld hér á landi þurfi að huga að því hvernig megi draga úr þeirri ógn sem steðjar að íslenska hagkerfinu vegna óstöðugleika á fjármálamörkuðum.