Ingólfur H. Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis, fjallar um stjórnarsáttmála nýrar ríkisstjórnar í Morgunkorni greiningardeildarinnar. Þar segir hann: "Heilt á litið virðist hér vera á ferðinni áframhaldandi frjálslynd umbóta- og velferðarstjórn sem leggur áherslu á góð rekstrarskilyrði fyrirtækja ásamt jöfnuði og bættum hag heimilanna. Um er að ræða sterka stjórn með mikinn þingmeirihluta sem líkleg er til að halda áfram með svipaða stefnu og drifið hefur hagvöxt hér á síðustu árum."

Formenn stjórnarflokkanna kynntu í morgun stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Í sáttmálanum segir m.a. að eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar sé að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu. Ingólfur bendir þannig á að markmið hagstjórnar er að tryggja lága verðbólgu, lágt vaxtastig, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jafnan og öflugan hagvöxt og áframhaldandi trausta stöðu ríkissjóðs. "Stórframkvæmdir, skattkerfisbreytingar og aðrar hagstjórnaraðgerðir verða tímasettar í ljósi þessara markmiða.
Ríkisstjórnin mun stefna að frekari lækkun skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Kerfi óbeinna skatta, s.s. vörugjalda og virðisaukaskatts, verður endurskoðað. Þá verður stimpilgjald í fasteignaviðskiptum afnumið á kjörtímabilinu þegar aðstæður á fasteignamarkaði leyfa," segir Ingólfur.