Vísbendingar eru um að sérstök stýrinefnd á vegum stjórnvalda (Government‘s Steering Group), sem var undir stjórn Indriða H. Þorlákssonar, hafi tekið ákvörðun um að setja innlán Spron í Nýja Kaupþing löngu fyrir yfirtöku á Spron 21. mars árið 2009. Hlutverk nefndarinnar var að fjalla um viðskiptaáætlanir nýju bankanna og fjármögnun þeirra. Þetta er mat Árna H. Kristjánssonar, sagnfræðings, sem hefur ritað sparisjóðsins.

Árni og Gylfi Magnússon, sem var viðskiptaráðherra þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir rekstur Spron, hafa deilt um síðustu daga sparisjóðsins og söguritunina á VB.is. Árni fullyrðir í bókinni margt benda til að stjórnvöld hafi í veigamiklum atriðum vikið frá faglegum vinnubrögðum til að knésetja sparisjóðinni . Hann hefur fengið í hendurnar upplýsingar sem hann telur styðja fullyrðingar sínar.

Gylfi hefur á móti vísað orðum Árna á bug. Hann hefur m.a. sagt fjárhagsstöðu Spron hafa verið orðna mjög bágborna undir lokin og sjóðinn keyrt á yfirdrætti áður en rekstur hans var stöðvaður. Þá hefur Gylfi haldi því fram að fyrrverandi stjórnendur sparisjóðsins, sem beri sök á falli hans, reyni með ritun um sögu Spron að endurskrifa söguna sér í hag.

Þeir Árni og Gylfi hafa skiptst á bréfasendingum á VB. Árni hefur nú brugðist við skrifum Gylfa frá í gær. Bréf Árna má lesa í heild sinni hér að neðan.

Að vaða í villu og svíma – Gylfa Magnússyni svarað á ný

Hinn 14. janúar sl. birtist greinin „Segir Spron hafa gengið lokametrana á yfirdrætti“ á vef Viðskiptablaðsins. Greinin er svar Gylfa Magnússonar við grein minni „Saga Spron og Gylfi Magnússon“ sem birtist á sama vef hinn 12. janúar sl. Grein Gylfa á það sammerkt með fyrri grein hans að vera full af rangfærslum. Allt hófst þetta með því að Gylfi svaraði fyrir ásakanir sem aldrei voru bornar á hann! Í stað þess að takast a við efnisleg álitamál sem tengjast atburðum í kringum hrunið þá kýs Gylfi að ráðast að trúverðugleika mínum og bókar minnar, Hugsjónir, fjármál og pólitík. Saga Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í sjötíu og sjö ár sem kom út nokkrum dögum fyrir jól. Í því skyni virðir hann lítt sannleikshugtakið, lætur kviksögur og klisjur hlaupa með sig í gönur. Engu líkara er en að hann hafi ekki haft fyrir því að skoða að lesa bókina. Hér er ekki rúm til að svara öllum rangfærslum Gylfa og skal því stiklað á stóru.

Athygli vekur að í síðustu grein sinni svarar Gylfi engu þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann í grein frá 13. janúar sl. Þess í stað reynir hann að dreifa athyglinni með því að hamra á að bók mín sé tilraun fyrrverandi stjórnenda SPRON til að endurskrifa söguna. „Það er líklega táknrænt að tilraunina greiða þeir ekki úr eigin vasa. Hún er kostuð af síðustu milljónunum sem tókst að kreista út úr flaki sparisjóðsins ...“ Að beiðni Gylfa upplýsti ég hann í tölvupósti nokkrum klukkutímum eftir að fyrsta fréttin birtist á vef Viðskiptablaðsins hinn 8. janúar sl. hverjir kostuðu ritun sögu SPRON. Það var SPRON-sjóðurinn ses sem var sjálfstætt félag á meðan það starfaði. Hann átti sem sagt ekkert skylt með SPRON hf. sem var yfirtekinn 21. mars 2009 enda með sjálfstæða stjórn og stefnu. Eftir hrun þá rýrnuðu eignir SPRON-sjóðsins ses verulega. Síðla árs 2010 var tekin ákvörðun um leysa hann upp. Þá átti sjóðurinn um 340 milljónir króna og var þeim rástafað til ýmissa málefna tengdum menntun, menningu og góðgerðastarfi. Ákveðin upphæð var eyrnamerkt Sögufélagi gegn því að það sæi um ritun og útgáfu sögu SPRON. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, var formaður sjóðsins og Jóna Ann Pétursdóttir framkvæmdastjóri. Sögufélag réð mig síðan til að rita söguna og dr. Sigurð Gylfa Magnússon til ritstýra henni. Á öllum stigum verksins lásu fræðimenn Sögufélags það yfir og að lokum ritrýndu tveir hagsögufræðingar verkið í svonefndri lokaðri ritrýni (aðeins trúnaðarmaður Sögufélags veit hverjir þeir eru, í þessu tilfelli forseti félagsins dr. Guðni Th. Jóhannesson). Það þarf ekki að koma á óvart að SPRON-sjóðurinn ses hafi viljað kosta ritun sögu SPRON. Um 30 ára skeið hafði staðið til að rita sögu SPRON og voru gerðar nokkrar árangurslausar atrennur að verkinu. Það var með öðrum orðum ríkur vilji til að segja sögu þessa merka sparisjóðs sem tengdist uppbyggingu Reykjavíkur órjúfandi böndum. Í stuttu máli var allt gert til að tryggja að höfundur hefði sem mest sjálfstæði gagnvart viðfangsefni sínu, rétt eins og þekkt er í heimi vísinda og fræða þar sem Gylfi Magnússon hefur haslað sér völl. Ekkert af þessu ætti því að koma honum á óvart með neinum hætti. Engu er líkara en að málflutningur hans byggi því á öðrum hvötum en sannleiksástinni.

Eftir að hafa gert tilraun til að sverta mig og rannsóknarverk mitt snýr Gylfi sér að falli SPRON þar sem uppistaðan í rökum hans eru þekktar gróusögur sem láta vel í eyrum: „Jafnframt var farið í miklar æfingar til að breyta eigin fé sjóðsins og gera sem mest af því að eign stofnfjárhafa. Síðan var sjóðnum breytt í hlutafélag til að losna við allar hömlur sem fylgt höfðu stofnfjárfyrirkomulaginu.“ Þetta er vinsæl mýta sem fallið hefur í kramið hjá alvitrum „pottverjum“ og öðrum slíkum. En Gylfi ætti að vita betur.

Í bók minni rek ég hvernig mikill vöxtur SPRON á árunum 1983–1987 skapaði alvarlegt vandamál. Samhliða örum vexti rýrnaði eigið fé sparisjóðsins hlutfallslega. Lengi vel var farin sú leið að fjölga stofnfjáreigendum en til lengdar dugði það ráð ekki. Sá eiginfjárvandi sem stærri sparisjóðir í landinu glímdu við var innbyggður í sparisjóðakerfið. Ljóst var að sparisjóðir gátu ekki vaxið án þess að ganga á hlutfall eiginfjárins. Sú stefna ESB að skapa einn samþættan markað og auka samþjöppun fyrirtækja setti óbreytta tilvist sparisjóða í uppnám. Ofan á viðvarandi eiginfjárvanda þurftu sparisjóðir að finna nýjar leiðir til þess að bregðast við kröfum um stærðarhagkvæmni og skilvirkni. Einnig gerði stefna ESB auknar kröfur um samkeppnishæfni sparisjóða og jók það þrýsting á að þeir breyttu rekstraformi sínu. Stærri sparisjóðir stóðu því frammi fyrir því að draga saman seglin, sameinaðist annarri innlánsstofnun eða að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélög þegar það var gert löglegt árið 2001. En þau lög voru sett vegna þessara breytinga á umhverfi sparisjóða. SPRON breytti rekstrarformi sínu árið 2007.

Þær tölur sem Gylfi slær fram eru afar villandi svo ekki sé meira sagt. Hann tekur ekki tillit til efnahagshrunsins, heldur fellur afleiðingar þess inn í rekstur SPRON árið 2008. Í bók minni er ekki dregin fjöður yfir hina gríðarlegu erfiðleika SPRON á þessum tíma. Síður en svo. Hins vegar vöknuðu margar spurningar um vinnubrögð stjórnvalda í málefnum SPRON.

Gylfi segir mig hafa „margvíslegar samsæriskenningar“! Það er ekki ein einasta samsæriskenning í bókinni – engin! Það skal ítrekað hér að engu er haldið fram í bókinni án fyrirliggjandi heimilda. Í verkinu er haldið í heiðri aðferðum vísindalegrar sagnfræði.

Að lokum endurtek ég þær spurningar sem Gylfi svaraði ekki:

1. Af hverju nýttu stjórnvöld ekki fyrirliggjandi heimild til að leggja fram eigið fé til SPRON?

2. Hvers vegna skiptu stjórnvöld fyrirvaralaust um skoðun á lausn, sem allir hlutaðeigendur höfðu náð samstöðu um hinn 27. febrúar 2009, þannig að FME veitti frest til 30. apríl?

3. Hvers vegna svaraði FME ekki tilboði erlendra lánveitenda, dags. 18. mars 2009, þar sem þeir buðust til að fella niður 21% af lánum sínum til að efla eiginfjárstöðu SPRON?

4. Hvers vegna fóru fulltrúar Seðlabankans með rangt mál þegar þeir fullyrtu við FME að lausafjárstaða SPRON hefði versnað í mars 2009?

5. Hvers vegna fóru fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og seðlabankastjóri með rangt mál um eiginfjárstöðu SPRON dagana eftir yfirtöku FME?

Og loks ein bónusspurning sem ég gat ekki reifað í bókinni vegna skorts á heimildum, en hef nú fengið vissu um að eigi rétt á sér:

6. Er það rétt að sérstök stýrinefnd á vegum stjórnvalda (Government‘s Steering Group), sem Indriði H. Þorláksson stýrði, hafi tekið ákvörðun um að setja innlán SPRON í Nýja Kaupþing löngu fyrir yfirtöku á SPRON hinn 21. mars 2009? Nefnd þessi hafði einmitt það hlutverk að fjalla um viðskiptaáætlanir nýju bankanna og fjármögnun þeirra.

Það skyldi þó ekki vera að þessi síðasta spurning auðveldi Gylfa Magnússyni að svara hinum spurningunum fimm?