Í nýjum leiðara á vefsetri Samtaka iðnaðarins fagnar Sveinn Hannesson, framkvæmdarstjóri SI, nýjum tillögum ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að lækka matvælaverð. Sveinn bendir á að tillögurnar komi á óvart að því leyti að þær gangi lengra og séu róttækari en flesta óraði fyrir.

Samtök iðnaðarins hvetja þó stjórnvöld til að stíga skrefið til fulls og afnema vörugjöld endanlega af öllum matvælum og segja sykurskattinn óframkvæmanlegan.

Um sykurskattinn segir Sveinn: "Samkvæmt tillögunum eiga reyndar að standa eftir leifar af vörugjöldunum í formi sykurskatts. Vörugjöldin voru áður lögð á einhvern óskilgreindan lúxusvarning en eftirleiðis á skatturinn sem sagt eð leggjast á ?sykur og sætindi.? Þetta er reyndar óframkvæmanlegt vegna þess að ef skattleggja á sykur sérstaklega þarf að skattleggja aragrúa alls konar matvæla sem innihalda sykur. Það gengur ekki að skattleggja sykur sem fluttur er til landsins en sleppa alls konar innfluttum matvælum sem innihalda sykur. Því verður vart trúað að ætlunin sé að setja vörugjöld á öll þau matvæli sem innihalda einhvern sykur sem fluttar eru inn eða framleiddar hér á landi. Hvað má vara innihalda mikinn sykur án þess að á hana leggist sykurskattur? Hvað með önnur sætuefni?

Stjórnvöld eru hvött til þess að endurskoða þennan þátt í annars góðum tillögum og stíga skrefið til fulls og afnema vörugjöld endanlega af öllum matvælum.