Breski verslanarisinn Tesco hefur selt allar verslanir sínar í Suður-Kóreu, sem reknar voru undir nafninu Homeplus, fyrir 4,2 milljarða punda. Fjárhæðin jafngildir 545 milljörðum íslenskra króna. BBC News greinir frá þessu.

Suður-kóreska fyrirtækið MBK Partners hefur keypt verslanirnar í samstarfi við kanadískan lífeyrissjóð og eignarhaldsfyrirtæki frá Singapúr. Eftir skatta og annan kostnað mun salan færa Tesco 3,35 milljarða punda í reiðufé. Búist er við því að kaupin verði frágengin að fullu fyrur lok ársins.

Líklegt þykir að fjármunirnir verði notaðir til niðurgreiðslu skulda hjá fyrirtækinu. Um er að ræða fyrstu stóru eignasöluna hjá félaginu eftir að það tilkynnti um 6,4 milljarða punda tap á síðasta fjárhagsári þess. Var þá um að ræða eitt stærsta tap sem nokkurt fyrirtæki hefur skilað á einu ári í sögu Bretlands.