*

þriðjudagur, 19. nóvember 2019
Innlent 30. október 2019 15:31

„Þessi reikningur mun gera þig galinn“

Icepuffin þarf ekki að greiða 250 milljóna króna kröfu vegna kaupa á krókum og línu.

Ritstjórn
Deilt var um reikninga vegna viðskipta á veiðafærum til línuveiða.
Aðsend mynd

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði með dómi sínum í dag fyrirtækið Icepuffin Fishing Gear af 250 milljón króna kröfu vegna kaupa á veiðarfærum, sigurnaglalínu og línukrókum. Stefnandi í málinu var Beko-Dimon Fishing, sem indverskur veiðafæraframleiðandi, en krafan var lögð fram vegna þriggja reikninga vegna viðskipta sem gerð voru árið 2016. 

„Stefnandi kveður stefnda hvorki hafa greitt kröfur stefnanda samkvæmt greindum vörureikningum né skilað vörunum aftur í hendur stefnanda og kveður innheimtuaðgerðir hafa verið árangurslausar. Kveður hann stefnda hafa í samskiptum sínum við sig gengist við því að skulda stefnanda vegna þessara viðskipta en geta gefið skýringar á greiðsludrætti.“

Stefndi mótmælir eindregið framangreindri atvikalýsingu og kveður framangreinda reikningana vera tilhæfulausa. Kveður stefndi að stefnandi hafi í viðskiptum þeirra hverju sinni gefið út tvo reikninga, annan háan og tilhæfulausan og hinn með mun lægri og réttri fjárhæð,“ segir í dómnum. 

„Af öðrum tölvupóstsamskiptum aðila má sjá að viðskiptasamband aðila málsins fer að stirðna fljótlega eftir þessi viðskipti og jafnframt að stefndi hefur ekki staðið í skilum við stefnanda, án þess að ráða megi af gögnum málsins hver fjárhæð skuldarinnar sé [...] Meðal annars er þess getið í tölvupósti að sendandi telji stefnanda stunda peningaþvætti og hafi í hyggju að tilkynna sendiráði Indlands og indverska viðskiptabanka hans um þá starfsemi, verði stefnandi ekki við beiðni fyrirsvarsmanns stefnda um að finna lausn á málinu.“

Í niðurstöðu dómsins segir að „báðir aðilar hafi gengið út frá því að til væru bæði réttir og rangir reikningar vegna viðskiptanna“. Meðal þess sem studdi þessa niðurstöðu var svohljóðandi tölvupóstur frá stefnanda: „I will also send you the correct invoice because this invoice will make you go crazy.“

Að mati dómsins hafi stefnandi „ekki tekist að færa sönnur á að reikningar þeir sem hann leggur til grundvallar málatilbúnaði sínum endurspegli það verð sem aðilar sömdu um að stefndi skyldi greiða fyrir vörurnar sem hann keypti af stefnanda á grundvelli framangreindra reikninga. Verður hann að bera hallann af sönnunarskorti í þessu efni,“ eins og það er orðað í dómnum. 

„Þar sem stefnandi reisir kröfu sína ekki á öðrum málsástæðum en þeim að umdeildir reikningar endurspegli fjárhæð skuldar stefnda er óhjákvæmilegt annað en sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.“

Var Beko-Dimon Fishing gert að Icepuffin málskostnað að upphæð 1.200.000 krónur.