*

sunnudagur, 16. júní 2019
Erlent 30. janúar 2019 08:31

Þingið vill nýjan Brexit-samning

Breska þingið fól í gær Theresu May að semja aftur við Evrópusambandið og fá írsku varaáætluninni breytt.

Ritstjórn
Fátt hefur komist að á breska þinginu annað en Brexit síðustu misseri.
epa

Breska þingið samþykkti í gærkvöld að fela Theresu May, forsætisráðherra, að leitast við að semja á ný við Evrópusambandið um útgöngu, með það sérstaklega fyrir augum að fá hinni umdeildu írsku varaáætlun (e. backstop plan) breytt.

Þá var samþykkt þingsályktunartillaga þess efnis að þingið vildi ekki ganga úr sambandinu samningslaust, en ályktunin hefur lítil stjórnskipuleg áhrif, hún er ekki bindandi að neinu leyti, og kemur ekki í veg fyrir samningslausa útgöngu þann 29. mars næstkomandi, hafi ekki náðst samkomulag um annað fyrir þann tíma.

Þrátt fyrir lítil formleg áhrif dugði ályktunin þó Jeremy Corbyn, leiðtoga verkamannaflokksins og stjórnarandstöðunnar, til að hefja formlegar viðræður við May um framhaldið, en hann hefur hingað til neitað slíkum viðræðum nema May útiloki samningslausa útgöngu, sem hún hefur ekki viljað gera.

Alls kaus þingið um sjö breytingartillögur, en aðeins þær tvær ofangreindu náðu fram að ganga. Meðal þeirra sem var hafnað var tillaga stjórnarandstöðuþingmanns um að Brexit skyldi frestað ef May tekst ekki að koma samningi gegnum breska þingið.

Samstaða þingsins um næstu skref kann þó að vera skammgóður vermir fyrir May. Margir leiðtogar Evrópusambandsins hafa sagt útgöngusamninginn almennt, og þá sérstaklega írsku varaáætlunina, endanlegan og óumsemjanlegan.

Umfjöllun BBC um atkvæðagreiðslurnar í gær.
Umfjöllun BBC um næstu skref.

Stikkorð: Brexit Theresa May
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is