Landsmenn mega ekki eyða meiru en þeir afla á næstu tveimur árum og fjármagna viðskiptahalla sinn með erlendu lánsfé. Verði það raunin þá þarf Seðlabankinn að grípa í taumana með vaxtahækkunum eða krónan mun veikjast, verðbólga aukast og neyslan kæfast niður af sjálfsdáðum.

Þetta er mat hagfræðingsins Ásgeirs Jónssonar, efnahagsráðgjafa GAMMA, lektors við Háskóla Íslands og fyrrverandi forstöðumanns greiningadeildar Kaupþings og síðar Arion banka.

Ásgeir skrifaði stutta greiningu fyrir Reykjavíkuborg um hagvaxtarhorfur í bráð og lengd í tengslum við 5 ára fjárhagsáætlun borgarinnar sem lögð var fram í vikunni. Í greiningunni er lagt mat á hagvaxtarhorfur skamms tíma (1-2 ára), meðalangs tíma (5 ára) og langs tíma.

Einkaneysla knýr hagvöxt áfram

Ásgeir segir erfitt að segja til um hve langt og kröftugt það hagvaxtarskeið sem framundan sé eftir 10% samdrátt komi til með að verða. Það geti aðeins staðið í 1-2 ár eða enst allt að 5 ár eftir því hvernig ytri aðstæður þróast. Vöxturinn er nú að mestu leiddur áfram með vexti þjóðarútgjalda, einkum einkaneyslu en einnig fjárfestingu í einhverjum mæli.

„Til þess að hagvöxtur geti haldið skriði fram yfir 2013 þarf framfarir í útflutningsframleiðslu landsins; ferðaþjónustan verður að halda áfram sínu skriði og fjárfestingar í orkuframleiðslu verða að ganga fram. Ísland þarf að safna gjaldeyrisforða en ekki eyða með viðskiptahalla,“ skrifar Ásgeir.

Greining Ásgeirs Jónssonar fyrir Reykjavíkurborg

Icelands Recovery - Ráðstefna Hörpu
Icelands Recovery - Ráðstefna Hörpu
© BIG (VB MYND/BIG)