Hörð orðaskipti hafa átt sér stað á Alþingi í dag um það hversu lengi eigi að funda um þau mál sem liggja fyrir þinginu.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir þingmenn verða að funda fram í júlí ætli þeir að klára þau mál sem þeir vilji ná í gegn. Alla jafna eru þinglok í lok mánaðar.

Á Alþingi hafa þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sagt ástæðu þess að fundir hafi dregist fram úr hófi fram á nótt þá að ríkisstjórnin og stjórnarliðar hafi lagt fram alltof mörg mál á síðasta framlagningardegi á þinginu. Stjórnarliðar hafa á móti sagt stjórnarandstæðinga stunda málþóf. Það sé ástæða þess að fundir hafi dregist.

Hér er yfirlit yfir nokkra þingmenn sem stigu í pontu á Alþingi fyrir hádegi og ræddu um störf þingsins og fundartíma:

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingkona Sjálfstæðisflokks, sagði umræðuna endurtekið efni. Ekki sé skortur á þingfundartíma. Funda megi fram í nóttina.

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingar lagði hins vegar áherslu á að ljúka þurfi málum. Ekki eigi að stöðva þau í þinginu bara til að stöðva þau.

Sigurður ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, benti á það að ekki sé útlit fyrir að þinginu takist að ljúka 70 til 100 málum á vorþingi. „Það er galið að afgreiða þessi mál á tveimur til þremur vikum,“ sagði hann og benti á að málin séu ekki merkileg. Mikilvægara sé að ræða um mál á borð við skuldamál heimilanna og öryggi borgaranna.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, brást harkalega við umræðunni. „Alþingi er aftur komið í leikskólasandkassaleik. Það er vegna skipulagsleysis þingsins og því að mál koma of seint inn. En það þýðir ekki að segja að þetta gerðir þú í fyrra. Hvaða fávitaháttur er hér í gangi? Þetta er til háborinnar skammar. Við viljum ekki kvöldfundi og teljum að ekki eigi að afgreiða mál á nóttunni. Það er óþolandi að vera með málþóf um mál sem skipta ekki máli. Því greiðum við atkvæði með þingfundi út í eitt þar til málum verði lokið“

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði af og frá að málin væru mörg. Ríkisstjórnin hafi lagt fram á sjötta tug mála á síðasta framlagningardegi.

„Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa eitt markmið. Það er að stöðva mál iog koma þeim ekki í gegn. Ef menn ætla að klára 31. maí þá er það vel hægt. Ef við þurfum að vera lengur þá gerum við það, jafnvel fram í júlí!“

Vígdís hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokks, tók undir það: „Auðvitað sitjum við langt fram á sumar ef forsætisráðherra segir okkur að gera það,“ sagði hún og gagnrýndi þrjósku forsætisráðherra. „[Hún] á sér engin landamæri. Það á að koma málum í gegn hvað sem það kostar.“