*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 11. nóvember 2011 15:53

Þorkell segir skrif greiningardeildar Arion ófagleg

Stjórnarformaður Framtakssjóðsins segir að greiningardeildin sé að draga athygli frá völdum bankans.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Framtakssjóður Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við skrif greiningardeildar Arion banka í yfirlýsingu, sem Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður sjóðsins, birtir á vefsíðu Framtakssjóðsins. Segir Þorkell að skrif greiningardeildarinnar séu ófagle og með þeim sé greiningardeildin að draga athygli frá þeim völdum og ábyrgð sem Arion banki og eigendur hans hafa í íslensku atvinnulífi. Þar segir að í markaðspunktum greiningardeildar Arion sé ýjað að því að sjóðurinn gæti keypt flest öll fyrirtæki landsins, en Þorkell segir að staðreyndin sé sú að nú þegar hafi sjóðurinn fjárfest fyrir sem nemur um 60% af sinni fjárfestingargetu, sem er um 54 milljarðar króna. Sjóðurinn muni ekki skuldsetja sig við hlutabréfakaup. Þá skili sjóðurinn söluverði allra eigna strax til eigenda sinna og safni því ekki verðmætum og völdum.

„Greiningardeildin gefur það jafnframt í skyn að Framtakssjóðurinn sé ekki að sinna hinu mikilvæga hlutverki sínu, m.a. að endurreisa hlutabréfamarkaðinn. Þetta er alrangt. Sjóðurinn er mikilvægur þátttakandi í að koma félögum úr eigu bankanna, en eignarhald þeirra á stórum hluta íslensks atvinnulífs hefur verið gagnrýnt með réttu og lítið gerst í þeim málum eftir hrun bankakerfisins árið 2008. Flest þau félög sem sjóðurinn hefur fjárfest í svo sem Icelandic Group, Skýrr, Vodafone, N1 og Promens eiga góða möguleika á að fara á hlutabréfamarkað og áform eru um slíkt með nokkur þeirra. Önnur félög verða seld til áhugasamra kaupenda að hluta eða í heilu lagi. Verið er að selja hluta af Icelandic Group og samningaviðræður eru í gangi við kaupanda að Húsasmiðjunni. Það mun hvort tveggja skýrast í þessum mánuði,“ segir Þorkell.

Ekki má endurtaka gamla leikinn

Hann segir í greininni að eitt meginhlutverk Framtakssjóðsins sé að stuðla að eflingu hlutabréfamarkaðarins og því skjóti það skökku við að greiningardeild Arion dragi það í efa. „Það þarf að leggja áherslu á að hlutabréfamarkaðurinn sé trúverðugur, þar ríki traust og vandað sé til verka í uppbyggingu hlutabréfamarkaðar að nýju. Ekki má endurtaka þann leik sem var í gangi í íslensku efnahagslífi og bankastarfsemi á árunum 2003-2008. Opna þarf einnig möguleika á að erlendir aðilar fjárfesti í íslensku atvinnulífi og jafnvel skrái hlutabréf bæði erlendis og hér á landi eins og dæmi eru um.“

Þorkell segir að vissulega séu eignir Framtakssjóðsins vandmeðfarnar og að stjórn sjóðsins geri sér fulla grein fyrir sinni ábyrgð. „Með því að benda á Framtakssjóðinn er greiningardeild Arion banka að draga athygli frá þeim völdum og ábyrgð sem Arion banki og eigendur hans hafa í okkar atvinnulífi. Það ætti frekar að vera sameiginlegt verkefni þessara aðila að vinna að efnhagslegri endurreisn hér á landi og sýna frumkvæði í því efni. Framtakssjóðurinn er tilbúinn að vinna með öllum að því mikilvæga verkefni og furðar sig á þeim ófaglegu skrifum sem greiningardeild Arion banka lætur frá sér fara.“