Þorvaldur E. Sigurðsson
Þorvaldur E. Sigurðsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þorvaldur E. Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Virkjana og sölu hjá Orkuveitunni. Undir sviðið heyrir rekstur allra virkjana fyrirtækisins og raforkusala á samkeppnismarkaði.

Þorvaldur er 47 ára gamall rafmagnsverkfræðingur frá Háskóla Íslands með víðtæka stjórnunarreynslu úr íslensku atvinnulífi. Hann var forstöðumaður kerfisverkfræði- og vélbúnaðarsviðs Kögunar í 10 ár. Þá var hann framkvæmdastjóri rekstrarlausna Skýrr og staðgengill forstjóra um níu ára skeið og stýrði þar hópi 60-100 starfsmanna.

Þorvaldur var framkvæmdastjóri Verne Holding ehf. 2008 og 2009 og hefur víðtæka þekkingu á gagnaverum af þeim vettvangi. Síðustu ár hefur Þorvaldur unnið að ráðgjöf hjá eigin fyrirtæki og fyrir gagnaflutningsfyrirtækið Emerald Networks.

Staða framkvæmdastjóra Virkjana og sölu var auglýst í október og rann umsóknarfrestur út 14. nóvember. Umsækjendur voru 38, þar af fimm konur.

Þorvaldur hefur störf hjá Orkuveitunni um áramótin.