Fyrir sex árum var félagið Milestone úrskurðað gjaldþrota, eftir að hafa verið eitt umsvifamesta fyrirtæki landsins í góðærinu, og enn eru tvö til þrjú ár í að málaferlum vegna reksturs félagsins ljúki. Það sem er að mestu leyti eftir í þrotabúinu eru dómsmálin samkvæmt Grími Sigurðssyni, skiptastjóra Milestone. Lýstar kröfur í þrotabúið voru metnar á 80 til 95 milljarða króna og hafa kröfuhafar einungis fengið um 1,5% upp í kröfurnar hingað til.

Milestone var úrskurðað gjaldþrota 18. september árið 2009. Á þeim tíma voru helstu eignir félagsins yfir 20% hlutur í Glitni, Sjóvá og Askar Capital. Á hápunkti félagsins, árið 2007, námu eignir félagsins 392 milljörðum króna og eigið fé 65,8 milljörðum króna. Hlutur Milestone í Glitni var metinn á 84,8 milljarða króna í árslok 2007. Helstu kröfuhafar voru slitastjórn Glitnis, sem á rúman helming krafna á Milestone, Straumur-Burðarás og Moderna Finance í Svíþjóð sem var í eigu Milestone og Sjóvár. Eitt prósent krafnanna var greitt út árið 2012. Á síðasta ári fengu svo kröfuhafar um 400 milljónir króna úr þrotabúinu, eða um 0,5% af samþykktum kröfum í þrotabúið. Kröfuhafar hafa því fengið um 1,5% upp í kröfurnar hingað til, en Grímur reiknaði með því árið 2012 að samtals myndu fást um 2-5% upp í kröfurnar.

Höfðaði tuttugu mál

Eftir að félagið var úrskurðað gjaldþrota hófust mikil málaferli. Árið 2010 var greint frá því að til stóð að höfða rúmlega tuttugu dómsmál vegna reksturs Milestone áður en fyrirtækið fór í þrot. Málin sneru að eignarsölu, lánum og ábyrgð stjórnarmanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .