Hin ríkjandi mynd af Íslandi úti í heimi er sú að landið sé í hópi umhverfisvænni og hreinni ríkja heims og er mikið til í því.

Hér er lítið um mengandi iðnað og orkan sem sá iðnaður, sem þó er til staðar, notar er sennilegasta sú hreinasta sem um getur. Því vaknar óneitanlega sú spurning hvort Ísland eigi ekki töluverða auðlind í formi þeirra losunarheimilda sem landinu hefur verið úthlutað en ekki verða nýttar.

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun fékk Ísland á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar, sem er frá 2008-2012, úthlutað 18.523.847 tonna losunarkvóta af koltvísýringi, eða 3.704.769 tonn að meðaltali á ári. Kristján Geirsson, deildarstjóri á sviði umhverfisgæða hjá Umhverfisstofnun, segir þó að losunarkvótarnir samkvæmt Kyoto-bókuninni og evrópska viðskiptakerfið með losunarheimildir, EST, séu algjörlega aðskildir hlutir en íslenskur iðnaður verður aðili að kerfinu árið 2013. Kerfið sé þó sett upp sem meginstjórntæki Evrópusambandsins til að standa við skuldbindingar sínar í samræmi við bókunina. Frá og með 2013 muni nokkrum íslenskum fyrirtækjum verða úthlutað losunarheimildir samkvæmt samevrópsku viðmiði.

Kristján segir að enn sem komið er sé losun íslenskra fyrirtækja í samræmi við þær heimildir sem stjórnvöld hafa úthlutað þeim af þeim kvóta sem Íslandi hefur verið úthlutað samkvæmt Kyoto-bókuninni. Mikil óvissa er þó um hvort losunarheimildir verði íslenskum fyrirtækjum að tekjulind og segir Kristján líklegt að a.m.k. álfyrirtækin muni þurfa að kaupa sér einhverjar heimildir.

Hækkandi verð á heimildum eru því væntanlega ekki góð tíðindi fyrir þessi fyrirtæki.

Fjallað er nánar um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.