Þýski netbankinn N26 hyggst hefja starfsemi hér á landi fyrir áramót, samkvæmt tilkynningu frá bankanum . DV sagði fyrst frá málinu í morgun .

Innlánsreikningar bankans, sem eru í evrum, eru hugsaðir sérstaklega fyrir þá sem ferðast mikið, hvort heldur sem er vegna vinnu eða af öðrum ástæðum.

Tvær tegundir reikninga eru í boði: venjulegur reikningur, sem ekkert kostar að vera með, og fyrirtækjareikningur, en með honum fá viðskiptavinir meðal annars 0,1% endurgreiðslu fyrir allar færslur.

Bankinn var stofnaður árið 2013 og hóf starfsemi 2015, en hann rekur engin útibú. Í dag er hann með yfir 1,5 milljón viðskiptavini og í gegnum hann flæðir yfir milljarður evra á mánuði.

„Margir viðskiptavinir í Evrópu lifa sífellt alþjóðlegra lífi. Frá opnun bankans hafa okkur borist margar beiðnir frá áhugasömum aðilum utan evrusvæðisins um að hefja á viðskipti í löndum þeirra. Á þetta höfum við hlustað og erum spennt að bjóða upp á þjónustu okkar í Danmörku, Noregi, Póllandi og Svíþjóð í dag,“ var haft eftir Alexander Weber, yfirmanni alþjóðlegra viðskipta hjá bankanum á miðvikudag, þegar bankinn hóf starfsemi í áðurnefndum löndum. Í sömu tilkynningu koma fyrirætlanir bankans á Íslandi fram.