Frestur til þess að skila tilboðum í bandaríska starfsemi Icelandic Group rann út í nótt og segir Fréttablaðið með vísan til heimilda að sennilega hafi fjögur tilboð borist, þ.m.t. frá kínverska fyrirtækinu Pacific Andes sem keypti starfsemi Icelandic í Frakklandi og Þýskalandi. Auk þess mun kanadíska fyrirtækið High Liner Foods liklega hafa gert tilboð í starfsemina en High Liner bauð fyrr í sumar 52,4 milljarða króna í alla erlenda starfsemi Icelandic.

Blaðið vísar jafnframt í gögn sem það hefur undir höndum þar sem einn bjóðenda viðrar áhyggjur sínar af því að sala á starfseminni muni loka erlendum mörkuðum fyrir íslenskum fiski en Finnbogi Jónsson, forstjóri Framkvæmdasjóðs Íslands sem á Icelandic, segir það ekki munu gerast. Íslenskur fiskur sé mjög eftirsóttur vestanhafs og muni vera það áfram.