Chad Holliday, forstjóri efnaiðnaðarrisans DuPont, skorar nú að helstu iðnfyrirtæki í Bandaríkjunum um að mynda samstöðu á næstu tveim árum um sameiginlega hönnun á bíl framtíðarinnar.

Greint er frá þessu í The Detroit News í dag og er þar nefnt að kalla mætti þessa hugmynd "Detroit verkefnið".

Haft er eftir Chad Holliday að verkefnið yrði leitt af bílarisunum þrem, Ford, General Motors og Chrysler. Yrði samstarfið á svipuðum grunni og svokallað Manhattan Project, sem var verkefni á landsvísu sem miðaði að smíði fyrstu kjarnorkusprengju Bandaríkjamanna í heimstyrjöldinni síðari.

Hugmynd hans er að Ford og Chrysler myndi kjarnann í þessu verkefni en aðrir leggi hugmyndavinnu og lausnir inn í púkkið. Þá nefnir Holliday einnig að aðrir mögulegir samstarfsaðilar í þessu verkefni geti verið Intel Corp., Microsoft Corp., Dell Inc., Boeing Co., Google Inc., sem og  Massachusetts Institute of Technology, Georgia Institute of Technology og University of Michigan.

Hugmynd forstjóra DuPont gengur einnig út á að hannaður verði bíll sem er umhverfisvænn, eyði aðeins einu galloni á hverjar 75 mílur (3,8 lítrum á hvern 121 kílómetra) og noti "butanol" sem er lífefnaeldsneyti sem er svipað og ethanol en ekki eins viðkvæmt fyrir vatnsinnihaldi.

Holliday kynnti þessar „brjálæðislegu" hugmyndir sínar fyrir Detroit Economic Club og sagði tímann núna vera einstakan til að hrinda slíkum áformum í framkvæmd.

Sagði hann ökutækið eiga að geta verið það besta í heimi og eigi að endurheimta forystu Bandaríkjamann í bílaiðnaði. Verkefnið komi til með að kosta 5 milljarða dollara.

Leggur hann til að því fjármagni verði safnað með því að selja skuldabréf á landsvísu líkt og bandaríska ríkið gerði við fjármögnun kjarnorkusprengjunnar. Verkefnið ætti að geta að skila góðri ávöxtun og því verið góð fjárfesting.