Sameiginlegar tillögur ASÍ og SA um breytingar á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá sl. fimmtudegi verða væntanlega afhentar ríkisstjórninni í dag. Þetta hefur Morgunblaðið eftir Vilmundi Jósefssyni, formanni SA. Markmið tillagnana mun vera að liðka fyrir kjarasamningum til þriggja ára.

Vilmundur segir töluvert bera í milli þessara tillagna og þess sem borist hefur frá ríkisstjórninni og að í stjórnarráðinu verði menn að átta sig á að talsvert þarf að leggja á sig til þess að ná þriggja ára friði á vinnumarkaði. Fram að þessu hefur ríkisstjórnin ekki haft afskipti af kjaraviðræðum en Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir vel fylgst með gangi mála á stjórnarheimilinu.

Öðru fremur munu það vera sjávarútvegsmálin sem verða ásteytingarsteinn en Vilmundur segir ríkisstjórnina á góðri leið með að kippa fótunum undan greininni.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir í samtali við Morgunblaðið að mikilvægt sé að tillögurnar séu trúverðugar og hönd á þeim festandi.