Slitastjórir bankanna hafa oft mátt sæta gagnrýni vegna launakjara sinna. Í viðtali við Viðskiptablaðið segist Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, hafa skilning á þeirri gagnrýni.

„En staðan er náttúrulega sú að við höfum kynnt kröfuhöfum tímagjaldið sem borið er af þrotabúunum. Gjaldið hefur verið sambærilegt við það sem tíðkast hjá íslenskum lögfræðistofum sem vinna fyrir erlenda aðila. Það kemst ekki í hálfkvisti við það sem erlendar lögfræðistofur hafa.

Í Glitni höfum við hins vegar rekið mjög gegnsætt og opið ferli. Við höfum birt mikið af upplýsingum á okkar heimasíðu. Það hefur leitt til þess að Glitnisbúið hefur verið svolítið í kastljósi fjölmiðla. En við höfum talið að það sé mjög mikilvægt, þegar við erum að tala um bú af þessari stærðargráðu, að það sé upplýst og opin umræða um það sem á sér stað hérna. Það hefur stundum valdið óþægindum, en það er bara hluti af því sem felst í því að vera í þessu starfi.“

Út frá hverju eru launakjörin ákveðin?

„Þetta eru auðvitað ekki launakjör. Þetta er tímagjald. Við erum lögfræðingar sem rekum stofu. Þetta er útseldur taxti, eins og hjá öðrum sérfræðingum. Þetta er bara eins og hver annar verktaki, hann rukkar tiltekið á á tímann og setur á það virðisaukaskatt.“

Ítarlegt viðtal við Steinunni er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .