Miklar breytingar urðu til móttöku á skemmtiferðaskipum þegar Skarfabakki við Sundahöfn var opnaður fyrr í sumar. Ágúst Ágústson, markaðsstjóri Faxaflóahafna sf., segir að með tilkomu Skarfabakka hafi skapast allt önnur og mun betri aðstaða til móttöku á stórum skemmtiferðaskipum í Reykjavík.

Hann segir að mest muni um að nú geti öll skip lagst að bryggju sem sé mikil breyting frá því að stór skip eins og Queen Elizabeth 2 hafi þurft að liggja úti á ytri-höfninni og að þurft hafi að flytja farþegana í land á bátum. Faxaflóahafnir hafa einnig eignast nýjan og öflugan dráttarbát.
Tólf metra djúp

"Framkvæmdir við Skarfabakka hófust árið 1995 og kostuðu um tvo milljarða króna enda um stóra framkvæmd að ræða sem fólst í miklum landfyllingum, um tveimur milljónum rúmmetra, og byggingu 500 metra langs hafnarbakka. Dýpið við bakkann er tólf metrar sem er mjög mikil hafnardýpt og gerir stórum skipum eins og QE2 fært að leggjast að bryggju. QE2 ristir 10,3 metra og í sumar gátum við tekið hana inn í fyrsta sinn," segir Ágúst.

Skarfabakki er fjölnotahafnarbakki því auk þess sem tekið verður á móti skemmtiferðaskipum verður þar löndun og útskipun stórra flutningaskipa. Það sem af er hefur mest reynt á móttöku skemmtiferðaskipa og hefur það gengið mjög vel. Svæðið í kringum hafnarbakkann er það stórt að hægt er að taka á móti miklum fjölda af rútum og bifreiðum til að þjónusta ferðafólkið af skipunum þegar það fer í land.

Ágúst segir að fjöldi skemmtiferðaskipa hafi tvöfaldast til Íslands á síðustu tíu árum og að í dag sé verið að taka á móti allt að þremur skipum á dag yfir háannatímann og að þeim eigi örugglega eftir að fjölga enn meira á næstu árum. "Í fyrra komu 77 skemmtiferðaskip til Reykjavíkur sem báru með sér 54.795 farþega og það er sami fjöldi skipa sem hefur boðað komu sína í ár. Sé litið 10 ár aftur í tímann voru það innan við 50 skip á ári sem heimsóttu landið," segir Ágúst.

Markaðsátak

Faxaflóahafnir hafa tekið þátt í markaðsátaki ásamt aðilum í ferðaþjónustu og skipaumboðsmönnum til að vekja athygli á Reykjavík og Íslandi sem áhugaverðum viðkomustað fyrir skemmtiferðaskip. "Vinnan við kynninguna hófst 1992 og það hefur margt áunnist síðan þá. Við förum t.d. á hverju ári á sýningu fyrir skemmtiferðaskip í Miami í Florida þar sem við kynnum Ísland og það hefur skilað góðum árangri. Faxaflóahafnir eru einnig meðlimir í samtökum sem heita Cruise Europe en innan þeirra erum 90 hafnir sem vinna sameiginlega að því að ná til sín fleiri skemmtiferðaskipum og þróa viðkomustaði þeirra þannig að þeir verði meira aðlaðandi bæði fyrir skipin sjálf og farþegana," segir Ágúst.

Í máli hans kemur fram að tímabilið sem skemmtiferðaskip sækja til landsins sé að lengjast. Fyrstu skipin koma hingað í maí og þau síðustu í október sem er mikil lenging fram á haustið frá því sem áður var.

Nýr dráttarbátur

Ágúst segir að Faxaflóahafnir hafi nýlega eignast nýjan dráttarbát. "Nýi báturinn hefur allt að 40 tonna togkraft en sá gamli hafði 17 þannig að hann eykur möguleikann til móttöku á stórum skipum einnig til muna. Það var löngu tímabært að endurnýja dráttarbátinn og nauðsynlegt fyrir okkur að eiga svona öflugan bát ef við ætlum að geta þjónustað stærstu skipin og verkefni fyrir nýja bátinn eru næg því hann þjónar ekki bara Reykjavíkurhöfn heldur líka Akranesi og Grundartanga," segir Ágúst Ágústsson að lokum.