Gríska ríkinu tókst að inna af hendi 200 milljóna dala vaxtagreiðslu af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðs í gær, en það segir sína sögu um stöðu grískra ríkisfjármála að slíkt komist í heimspressuna. Laust fé gríska ríkisins er því sem næst upp urið og lítið hefur gerst í viðræðum stjórnarinnar við lánadrottna hennar frekar en undanfarna mánuði. Í næstu viku þarf Grikkland að greiða 750 milljónir dala til viðbótar til gjaldeyrissjóðsins.

Lánadrottnarnir, með Evrópusambandið og AGS í broddi fylkingar, hafa lagt hart að grísku stjórninni að skera meira niður í opinberum fjármálum og hagræða. Það veit því ekki á gott að í gær sneri gríska stjórnin við umfangsmiklum umbótum varðandi opinbera starfsmenn. Gagnrýnendur stjórnarinnar segja að þessi viðsnúningur gæti leitt til þess að opinberum starfsmönnum fjölgi um allt að 15.000, þvert á kröfur lánadrottnanna.

Næsti fundur fjármálaráðherra evrusvæðisins er næstkomandi mánudag, en fátt bendir til þess að samkomulag náist þar við grísk stjórnvöld frekar en á síðasta fundi ráðherranna. Tíminn sem er til reiðu er knappur því gríska ríkið þarf að greiða AGS 750 milljónir dala þann 12. maí, þ.e. næstkomandi þriðjudag og þótt stjórnvöld hafi sagst ætla að standa við skuldbindingar sínar er langt frá því að almenn trú sé á að það muni geta gerst að óbreyttu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .