Þrotabú föllnu bankanna gætu þurft að greiða íslenska ríkinu samtals allt að 1.868 milljarða króna í tekjuskatt. Útreikningurinn byggir á bindandi áliti ríkisskattstjóra sem gefið var út fyrir skömmu.

Þar kemst skattstjóri að þeirri niðurstöðu að mismunur samþykktra krafna í þrotabú og útgreiðslu til kröfuhafa, þ.e. í raun munur eigna og skulda, skuli teljast sem eftirgjöf skuldar í skattalegu tilliti við skiptalok. Munurinn myndi því teljast sem tekjur hjá þrotabúinu og bera tekjuskatt.

Ekki verður hægt að nota yfirfæranlegt skattalegt tap þrotabúanna vegna hrunársins 2008 á móti þessum skatti eftir árslok 2018 því yfirfæranlegt tap rennur út á tíu árum. Ætli kröfuhafar þrotabúanna því að lágmarka skattheimtuna verða þeir að ljúka slitum á búunum fyrir árslok 2018.

Uppfært 13. maí kl. 14:15: Ríkisskattstjóri hefur nú afturkallað álitið þar sem undirbúningi við vinnslu þess var áfátt. Nýtt álit verður gefið út innan fárra daga.

Ítarlega verður fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út á morgun. Áskrifendur munu geta nálgast blaðið hér .